Sagði Vigdísi að þegja

Þingfundi lauk rúmlega eitt í nótt á Alþingi með því að Helgi Hrafn Gunnarsson mælti með breytingum á lögum um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði og lögreglulög.

Atkvæðagreiðslu um frumvarpið var frestað en þingfundur hefst að nýju klukkan 9:30.

Áður en kom að Helga Hrafni í ræðustól var rætt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána. Meðal þeirra sem komu í ræðustól var Steingrímur J. Sigfússon sem virtist vera búinn að fá nóg af frammíköllum á meðan hann flutti ræðu sína því hann sagði Vigdísi Hauksdóttur, þingmanni Framsóknarflokksins að þegja. „Þegiðu háttvirtur þingmaður Vigdís Hauksdóttir,“ sagði Steingrímur og sagðist leyfa sér þetta og það væri nóg komið og beindi orðum sínum til háttvirts forseta Alþingis, Einars K. Guðfinnssonar. Sagðist hann leyfa sér þetta því það væri ekki hægt að hafa þennan leiðindafriðarspilli gjammandi endalaust, svo orð Steingríms séu notuð.

Steingrímur hrósaði Pétri Blöndal og Vilhjálmi Bjarnasyni fyrir aðkomu sína að þessu þingmáli og segir að það eigi að vera skyldulesning fyrir alla að lesa álit Péturs um frumvarpið.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert