Nokkrir verkfræðinemar úr Háskólanum í Reykjavík ætla að skjóta eldflaug á loft frá Mýrdalssandi í fyrramálið. Hún fer 6 kílómetra upp í loftið og verður hægt að fylgjast með fluginu í gegnum veraldarvefinn en símtæki verður fest við eldflaugina.
Ívar Kristinsson, meistaranemi í HR, er einn af þeim sem vinna að smíði eldflaugarinnar. „Upphaf verkefnisins má rekja til listamanna frá NY og Puerto Rico. Þeir hafa áhuga á að senda rakettu upp til að mynda norðurljósin innan frá á leiðinni niður,“ segir Ívar. Listamennirnir hafa gert tilraunir með loftbelgi en hafa ekki haft erindi sem erfiði.
Norðurljósin eru yfirleitt í 80 til 100 kílómetra hæð, stundum neðar. „Við byrjum í sex kílómetra hæð. Við þurfum meðal annars að finna leiðir til að stjórna búnaðinum á leiðinni niður þannig að hann komi niður í heilu lagi,“ segir Ívar.
Félagar Ívars eru allir í meistaranámi í vélaverkfræði í HR og hófst vinna við verkefnið í janúar á þessu ári. Hann segir að nokkuð mikil vinna liggi að baki verkefni af þessu tagi. Afla þarf heimilda, ýmissa leyfa, hanna tækið, panta búnað í tækið, smíða það og ýmislegt fleira.
Í eldflauginni er meðal annars sprengiefni og nokkurn tíma hefur tekið að fá leyfi fyrir notkun búnaðarins. „Þetta tekur allt tíma en við höfum lært af þessu ferli,“ segir Ívar.
Hópurinn má ekki skjóta eldflauginni á loft hvenær sem þeim hentar. „Við höfum sótt um nokkra „glugga“ á fimmtudaginn, allt frá klukkan 6 um morguninn til klukkan 18 um kvöldið,“ segir Ívar. Engin flugumferð má vera yfir svæðinu á sama tíma því ekki má eldflaugin rekast í flugvélar.
Sótt var um nokkra tíma, 6.00-6.15, 6.45-7.00, 8.00-8.15, 8.45-9.00, 17.00-17.15, 17.45-18.00, 19.00-19.15 og 19.45-20.00.
„Eldflaugin er enga stund á leiðinni upp, kannski eina til tvær sekúndur að ná hámarkshæð. Hún er aftur á móti tæpar tvær mínútur á leiðinni niður,“ segir Ívar. Tvær gopro-myndavélar og snjallsími frá Símanum verða tengdar við eldflaugina.
Þegar verkinu er lokið bíður hópsins skýrslugerð. Ívar segist vona að aðrir geti nýtt sér upplýsingarnar, sem þeir munu og hafa aflað, og þróað verkefnið í framtíðinni.
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir að sendi verði komið fyrir á Mýrdalssandi þar sem eldflauginni verður skotið upp. Flugi hennar verði streymt og því hægt að fylgjast með skotinu og undirbúningi þess sem verður m.a. tekið upp á snjallsímann sem fer með í flugið.
Gunnhildur Arna segir að um spennandi verkefni sé að ræða. Síminn hafi því ákveðið að veita hópnum einnig fjárhagslegan stuðning.
„Við hjá Símanum vildum styðja þetta einstaka framtak íslenskra háskólanemanna enda getum við nýtt búnað okkar og fjarskiptatæknina til þess að safna upplýsingunum um ferðir flaugarinnar. Við erum stolt af því að eiga þátt í þessum draumi og hlökkum mikið til að sjá hvernig skotið heppnast á streymi Símans,“ segir Gunnhildur Arna.
Stefnt er að því að flauginni verði skotið á loft um klukkan 6 í fyrramálið. Hér verður hægt að fylgjast með.