„Ég viðurkenndi að hafa drepið Geirfinn og greindi frá ferð okkar til Keflavíkur,“ skrifaði Guðjón Skarphéðinsson 8. desember 1976 í dagbók sína í gæsluvarðhaldi vegna gruns um aðild að Geirfinnsmálinu. Hann sagðist vona að það yrði til þess að lægja öldurnar í íslensku samfélagi.
Í ítarlegri úttekt breska ríkisútvarpsins, BBC, á Guðmundar- og Geirfinnsmálunum sem birt var í dag er meðal annars vitnað í dagbók Guðjóns Skarphéðinssonar en BBC ræddi einnig við hann vegna málsins. „Þegar hann les orð sín í fyrsta skipti í næstum 40 ár segir hann: „frekar óhugnanlegt“.“
Guðjón var handtekinn í nóvember 1976 og hann hefur dagbók sína á þeim orðum að hann viti ekkert um málið. Eins og öðrum sakborningum var Guðjóni haldið í einangrun og á næstu vikum breyttist tónninn í dagbókinni. Hann bað guð að hjálpa sér að muna atvik málsins og í desember skrifaði hann: „Ég man ekkert og er að missa vitið.“
Guðjón var síðar dæmdur fyrir aðild að málinu en í niðurstöðu skýrslu starfshóps sem kom út í fyrra segir að í raun beri framburður hans og það að hann játaði þátttöku í málinu öll merki falskrar játningar.
Hann þurfti að þola langar og tíðar yfirheyrslur, að minnsta kosti 75 talsins í samtals tæpa sjö sólarhringa. Þá fjórtán mánuði sem hann var í gæsluvarðhaldi hélt hann dagbókina. Í skýrslu starfshópsins var vitnað í hana og á mbl.is greint frá nokkrum textabrotum.
18. nóvember 1976 skrifaði Guðjón: „Stundum finnst mér ég vera sekur en get ekki munað hvað hefur gerst. Biðin er svo erfið og að hugsa um alla þá sem þykir og hefur þótt vænt um mig. Ég hlýt að vera veikur og hafa verið það lengi. Þetta er geðsjúkdómur. Viljann skortir allan styrk.“
22. nóvember skrifaði hann: „Ef ég bara vissi hvort ég hefði tekið þátt í þessu eða ekki. Ég blekkti fólk það er þannig. Ég er alltaf að leika, ég er veikur maður.“
Guðjón sagði í viðtali við starfshópinn í febrúar 2012 að hann hefði aldrei verið sannfærður um að hann hefði verið viðriðinn hvarf Geirfinns, en eftir viðtöl við lögreglumenn og vettvangsferð til Keflavíkur 28. nóvember 1976 hefði hann verið 50% viss um að hann væri flæktur í málið.
Í úttekt BBC er svo birt textabrot frá 8. desember 1976. Í því segir: „Ég viðurkenndi að hafa drepið Geirfinn og greindi frá ferð okkar til Keflavíkur. Vonandi finnst þá lík mannsins á næstu dögum og íslenskt samfélag getur dregið andann djúpt og slakað á.“
Eins og greint var frá á mbl.is í gær komu bresku fjölmiðlamennirnir Simon Cox og Helen Grady til Íslands 24. mars síðastliðinn til að vinna að gerð þáttarins. Afraksturinn má sjá á vefsvæði BBC en meðal þess sem vekur athygli eru ljósmyndir sem teknar voru við rannsókn málsins. Má á þeim sjá sakborning og lögreglu sviðsetja atvik í málinu. BBC segir þetta til marks um hversu örvæntingafullir rannsóknarlögreglumennirnir voru við rannsóknina.
Frétt mbl.is: „Venji mig við þá tilhugsun að vera morðingi“
Frétt Morgunblaðsins: Játningar óáreiðanlegar eða falskar