Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair, segir að hugsa þurfi til langs tíma varðandi kjaramál hjá félaginu og stuðla þannig að meiri stöðugleika í kringum starfsemina. Ótækt sé að órói skapist líkt og gerðist eftir verkfall flugmanna í FÍA hjá Icelandair.
Spurður um kostnað Icelandair af verkfallinu vísar Björgólfur til tilkynninga félagsins til Kauphallarinnar. Í tilkynningu 6. maí sagði að áætlað tap Icelandair Group vegna boðaðs verkfalls Félags íslenskra atvinnuflugmanna næmi um 1,5-1,7 millljarði króna, ef verkfallið varir allan þann tíma sem það hefur verið boðað. Í tilkynningu 11. maí sagði að aflýsa hefði þurft fleiri flugferðum en gert var ráð fyrir og að ef aðgerðirnar héldu áfram hefði það verri áhrif á afkomuna en boðað var 6. maí.
Er nú ljóst að alls 67 flug voru felld niður og segir Björgólfur ekki hægt að meta kostnað eða langtímaáhrif á þessu stigi. „Það er auðvitað von mín að það verði ekki langtímaáhrif af þessu. Tíminn verður að leiða það í ljós.“
Hafi ekki áhrif á starfsmannaveltu
Björgólfur kveðst aðspurður vonast til að kjaradeilan hafi ekki áhrif á starfsmannaveltu hjá félaginu
„Ég auðvitað vona ekki. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem aðilar takast á um lausn svona kjaradeilu. Við þurfum að takast á við þetta í sameiningu og vinna út frá þeirri stöðu sem er uppi. Þetta er einn þáttur núna og verkefnið liggur fyrir, að við þurfum að ljúka samningum.
Hann segir félagið að sjálfsögðu vilja hafa samninga við allar stéttir. „Við þurfum að fara að hugsa til langs tíma í því og tryggja stöðugleika í kringum okkar starfsemi. Það er auðvitað ótækt að svona aðstæður verði uppi í framtíðinni. Það þarf að finna einhverja þá lausn sem getur sætt sjónarmið allra, þannig að sátt verði hjá okkar hópum.“
Vinna að samningum við flugfreyjur
Hvað með flugfreyjurnar? Þær boða yfirvinnubann 18. maí og verkfall 27. maí.
„Við erum að vinna í samningum við þær. Það er von mín að við náum að ljúka því. Það er verkefni sem við þurfum að klára. Við höfum ákveðinn tíma í það.“
Björgólfur kveðst aðspurður ekki geta svarað því hvort meira eða minna beri í milli kjaradeilu flugfreyja annars vegar og flugmanna hjá Icelandair hins vegar.
Ýmislegt gerist í hita leiksins
Nú hefur skorist í odda milli flugmanna og forystumanna Icelandair í fjölmiðlum. Hefur deilan spillt andrúmsloftinu?
„Auðvitað gerist svona lagað í hita leiksins, að menn karpa. Það hjálpar ekkert að vera í fýlu endalaust, þetta er búið og gert. Hvað mig varðar að þá er sá pakki grafinn. Það er verkefni mitt að tryggja að þetta spilli ekki samvinnu í framtíðinni. Ég auðvitað vona að það sé eins hinum megin frá. Ég reyndi að vera frá fjölmiðlaumfjölluninni í þessari atrennu.“