„Við erum með lög á bakinu og mjög ósáttir við það. Það er mikil reiði í okkar hóp og bendum á að enginn verði neyddur til að vinna yfirvinnu,“ segir Örnólfur Jónsson, formaður samninganefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna. Alþingi samþykkti fyrr í dag að setja lög á verkfall flugmanna.
Samkvæmt frumvarpinu verða verkfallsaðgerðir sem Félag íslenskra atvinnuflugmanna hóf gegn Icelandair 9. maí óheimilar, frá gildistöku laganna. Deiluaðilum verður heimilt að semja um kjaramál, en óheimilt verður að knýja fram kjarabætur með vinnustöðvun.
Örnólfur segir að flugmenn séu reiðir því að ráðist sé á réttindi þeirra með þessum hætti. „Við teljum það mjög sérstakt ef lenskan í þjóðfélagin verður sú að stöðva löglega boðaðar vinnustöðvanir með lagasetningu. Þá er verið að færa alla kjarabaráttu hér á landi langt aftur í tímann.“
Hafi deiluaðilar ekki náð samkomulagi þann 1. júní skal gerðardómur grípa inn í og ákveða kaup og kjör flugmanna Icelandair fyrir 1. júlí nk. Örnólfur segir að þetta sé eitthvað sem löggjafinn hafi sett inn til að fá á viðræðurnar lokapunkt. „En okkur gefst kostur til að semja áður en gerðardómur gengur þannig að það er ennþá tími ef vilji er fyrir hendi. En við höfum enga reynslu af gerðardómi og ekki þeir heldur, enda er þetta mjög sjaldgæft.“
Mikið hefur borið í milli samningsaðila og segir Örnólfur að þetta verði þá kannski til þess að setja þrýsting á menn þannig að þeir teygi sig lengra í viðræðunum.