„Þetta er alltaf neyðarúrræði“

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Mér þykir mjög miður að við þurfum að ganga til þessa verks og að ekki hafi tekist að semja eftir eðlilegum og réttu leiðum. Á móti kemur að hagsmunirnir eru auðvitað þess eðlis að undan þessu verki verður ekki vikist,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra um frumvarp um lögbann við verkfalli flugmanna FÍA hjá Icelandair.

Hanna Birna mælti fyrir frumvarpinu eftir eldhúsdagsumræður í kvöldi og varð til svara um þær umræður sem þá spunnust, nú laust eftir miðnætti.

Spurð út í þau ummæli Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingar, á þingi í kvöldi, að með lögbanni á verkfall starfsmanna Herjólfs og frumvarpinu um lögbannið nú sé ríkisstjórnin að setja fordæmi, segir Hanna Birna að það sé ekki rétt.

„Í þessu felst ekkert fordæmi“

„Ég tel ekki að hér sé á ferðinni neitt fordæmi. Þetta er, eins og ég hef áður sagt, alltaf neyðarúrræði. Fyrri ríkisstjórnir hafa þurft að gera þetta einnig. Þannig að í þessu felst ekkert fordæmi. Við erum einfaldlega stödd á þeim stað að ríkissáttasemjari boðar ekki til fundar, báðir viðsemjendur eru þeirrar skoðunar að það sé engin lausn í sjónmáli. Við stöndum frammi fyrir því að tryggja að hér gangi atvinnulíf fyrir sig með eðlilegum og viðunandi hætti á næstu mánuðum.“

Hanna Birna væntir þess að frumvarpið verði samþykkt á fimmtudag.

„Ég á von á því að lögin taki gildi á morgun [fimmtudag]. Nefndarvinnan hefst snemma í fyrramálið. Ég vona að það gangi vel og að við getum klárað málið eins fljótt og mögulegt er,“ sagði Hanna Birna.

Sjá einnig: Mælti fyrir lögum gegn verkfalli flugmanna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert