Sérstakur saksóknari fer fram á sex ára fangelsi yfir Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis banka, í Aurum-málinu svonefnda. Þá fer hann fram á fjögurra ára fangelsi yfir þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, einum aðaleiganda bankans, Magnúsi Arnari Arngrímssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs, og Bjarna Jóhannessyni, fyrrverandi viðskiptastjóri Glitnis.
Munnlegur málflutningur hófst fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun og hóf Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, leik og lauk máli sínu fyrir skömmu.
Meðal þess sem kom fram í máli saksóknara var að hann teldi málið eiga sér afar fá fordæmi þegar kemur að efnahagsbrotum hér á landi. Brotin væru „afar alvarleg“.
Málið snýst um sex milljarða króna lánveitingu Glitnis banka til félagsins FS38 ehf. í júlímánuði árið 2008. Lánið var veitt til að fjármagna að fullu kaup FS38 á 25,7% hlut í Fons, eignarhaldsfélagi Pálma Haraldssonar, í Aurum Holdings Limited.
FS38 var að fullu í eigu Pálma.
Fjórmenningunum er gefið að sök umboðssvik eða hlutdeild í umboðssvikum vegna lánveitingarinnar.