Vill Lárus í sex ára fangelsi

Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis.
Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis. mbl.is/Þórður Arnar

Sér­stak­ur sak­sókn­ari fer fram á sex ára fang­elsi yfir Lár­usi Weld­ing, fyrr­ver­andi banka­stjóra Glitn­is banka, í Aurum-málinu svo­nefnda. Þá fer hann fram á fjögurra ára fangelsi yfir þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, einum aðaleiganda bankans, Magnúsi Arnari Arngrímssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs, og Bjarna Jóhannessyni, fyrrverandi viðskiptastjóri Glitnis.

Munn­leg­ur mál­flutn­ing­ur hófst fyr­ir Héraðsdómi Reykja­vík­ur í morg­un og hóf Ólafur Þór Hauksson, sérstakur sak­sókn­ari, leik og lauk máli sínu fyrir skömmu.

Meðal þess sem kom fram í máli sak­sókn­ara var að hann teldi málið eiga sér afar fá fordæmi þegar kemur að efnahagsbrotum hér á landi. Brotin væru „afar alvarleg“.

Málið snýst um sex millj­arða króna lán­veit­ingu Glitn­is banka til fé­lags­ins FS38 ehf. í júlí­mánuði árið 2008. Lánið var veitt til að fjár­magna að fullu kaup FS38 á 25,7% hlut í Fons, eign­ar­halds­fé­lagi Pálma Har­alds­son­ar, í Aur­um Hold­ings Lim­ited.

FS38 var að fullu í eigu Pálma.

Fjórmenningunum er gefið að sök umboðssvik eða hlut­deild í umboðssvik­um vegna lán­veit­ing­ar­inn­ar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert