„Ég held að næturnar verði erfiðastar“

Emil Áki og Sædís Ósk með börnin sín.
Emil Áki og Sædís Ósk með börnin sín. mbl.is/Eva Björk

Að eiga barn er nokkuð fjarlæg hugmynd í huga flestra 14 ára unglinga. Það verður þó ekki þannig hjá hópi unglinga í áttunda bekk í Rimaskóla um helgina, en þau eru með það verkefni að sjá um svokallað „raunveruleikabarn“.

„Raunveruleikabarnið“ er dúkka sem samsvarar nokkurra mánaða gömlu barni. Dúkkan getur líkt eftir flestöllum eiginleikum alvörubarns, en hún til að mynda grætur, drekkur og hjalar. Síðan þarf að sjálfsögðu að skipta á bleium reglulega. Unglingarnir taka dúkkuna heim í dag og sjá um hana yfir helgina. Þrátt fyrir að vera aðeins dúkka geta unglingarnir ekki sleppt því að sjá um „raunveruleikabarnið“ því öll vanræksla er skráð í innbyggða tölvu dúkkunnar. 

Á mánudag mun kennari þeirra, Jónína Ómarsdóttir, fara yfir gögn dúkkunnar og gefa unglingunum einkunn eftir því hversu vel var séð um dúkkuna.

Emil Áki Ægisson og Sædís Ósk Gunnlaugsdóttir eru bæði 14 ára og fá að eyða helginni með „raunveruleikabarni“.  

„Þetta verður sérstakt,“ segir Emil. „Ég mun örugglega læra mikið á þessu, en ég held samt að þetta sé aðeins auðveldara en að eiga alvörubarn.“ Aðspurður hvað hann haldi að verði erfiðast í þessu öllu sama stendur ekki á svari: „Ég held að næturnar verði erfiðastar.“

Sædís er þó ekki með áhyggjur af nóttunum. „Ég er yfirleitt frekar fljót að vakna þannig að ég held að næturnar verði bara bærilegar. Ég er frekar stressuð um að barnið verði óánægt,“ segir Sædís og bætir við að hún búist við að þetta verði nokkuð erfið helgi.

Jónína Ómarsdóttir útskýrir verkefnið fyrir hópnum
Jónína Ómarsdóttir útskýrir verkefnið fyrir hópnum mbl.is/Eva Björk
Þessi hópur fær að komast nokkuð nálægt því að upplifa …
Þessi hópur fær að komast nokkuð nálægt því að upplifa foreldrarhlutverkið um helgina mbl.is/Eva Björk
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert