Jón Ásgeir Jóhannesson, sem var einn af aðaleigendum Glitnis banka, var ekki í aðstöðu og hafði engar forsendur til að meta þá fjártjónshættu sem skapaðist við sex milljarða lánveitingu Glitnis til eignarhaldsfélagsins FS38 í júlímánuði árið 2008. Sú ábyrgð hvíldi á áhættunefnd bankans að meta heildaráhrif lánveitingarinnar, sem og ráðstöfun lánsfjárins, og verður ábyrgðin ekki flutt á aðra sem stóðu utan bankans og komu ekki að málum.
Þetta kom fram í máli Gests Jónssonar, verjanda Jóns Ásgeirs, við aðalmeðferð í Aurum-málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Hann hóf leik eftir hádegishlé og flutti málflutningsræðu sína.
Eins og mbl.is hefur greint frá var lán Glitnis veitt til að fjármagna að fullu kaup FS38 á 25,7% eignarhlut í Fons, eignarhaldsfélagi Pálma Haraldssonar, í Aurum Holdings Limited. Pálmi átti FS38 að fullu.
Jón Ásgeir er ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum Lárusar Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, og Magnúsar Arnars Arngrímssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans, en til vara fyrir hylmingu og til þrautavara fyrir peningaþvætti, með því að hafa – í krafti áhrifa sinna í Glitni – beitt Lárus og Bjarna Jóhannesson, þáverandi viðskiptastjóra bankans, fortölum og þrýstingi og hvatt til þess, persónulega og með liðsinni Jóns Sigurðssonar, varaformanns stjórnar Glitnis, og Gunnars Sigurðssonar, forstjóra Baugs Group, að þeir Lárus og Magnús Arnar samþykktu lánveitinguna, honum sjálfum og Fons til hagsbóta.
Sérstakur saksóknari heldur því fram að Jóni Ásgeiri hafi ekki getað dulist að með lánveitingunni væru Lárus og Magnús Arnar að misnota aðstöðu sína og valda bankanum verulegri fjártjónshættu.
Að undirlagi Jóns Ásgeirs hafi Fons síðan heimilað ráðstöfun á einum milljarði króna af lánsfjárhæðinni inn á persónulegan reikning sinn. Hann hafi síðan nýtt þennan milljarð í eigin þágu, meðal annars til að greiða 705 milljóna króna yfirdráttarskuld sína hjá Glitni.
„Fékk ákærði Jón Ásgeir þannig hlut í ávinningi af brotinu og naut hagnaðarins,“ sagði sérstakur saksóknari í málflutningsræðu sinni í gær.
Gestur hafnaði þessum málatilbúnaði. Hann sagði ekkert benda til þess að Jón Ásgeir hefði tekið ákvörðun um lánveitinguna. Jón Ásgeir hefði ekki heldur haft hugmynd um hvernig að ákvörðuninni hefði verið staðið. „Hann getur ekki verið til andsvara um verknaðinn,“ sagði Gestur.
Gestur nefndi einnig að ljóst væri að lánveitingin hefði verið staðfest á fundi áhættunefndar bankans og því hefði það hvort eð er ekki skipt máli þótt ákvörðunin hefði fyrst verið tekin á milli funda nefndarinnar.
„Þeir áhættunefndarmenn sem sátu fundinn hafa staðfest ákvörðunina og hefðu þeir getað synjað henni staðfestingar ef þeir hefðu haft þá afstöðu,“ sagði Gestur.
Fundur áhættunefndar fór fram 9. júlí sumarið 2008 en lánið var ekki greitt út fyrr en tólf dögum síðar. „Ég fæ ekki betur séð en að farið hafi verið að öllum reglum í þessu tilviki,“ sagði Gestur. Staðfestingin hefði verið færð í fundargerð fundarins án athugasemda.
Sérstakur saksóknari hefur sagt að lánveitingin hafi verið samþykkt á milli funda vegna augljósrar andstöðu áhættunefndarinnar við málið.
Varðandi fjártjónshættuna sagði Gestur að enginn vafi léki á því að lánveitingin hefði styrkt stöðu Glitnis gagnvart Fons og FS38.
„Um þátt Jóns Ásgeirs skal tekið fram að hann hafði ekki aðgang að þeim upplýsingum innan bankans sem nauðsynlegar voru til að meta fjartjónshættuna,“ benti Gestur á.
Áhætta bankans af lánveitingunni og hugsanlegri fjártjónshættu yrði ekki metin af neinum öðrum en þeim sem þekkti til málsins. Hann hefði þurft að þekkja til stöðu FS38, hafa mynd af eignum og skuldum Fons sem og hlutafjárvirði Aurum Holdings. Í fjórða lagi yrði hann að hafa í huga hverjir hagsmunir bankans væru við ráðstöfun lánsfjárins.
Gestur sagði að Jón Ásgeir hefði ekki verið í aðstöðu til að meta þessa þætti. Hann hefði ekki vitað með hvaða hætti málið var afgreitt innan bankans og gat ekki með neinum hætti metið áhættu bankans af lánveitingunni.
Sérstakur saksóknari hefur fjallað mikið um meinta skuggastjórnun Jóns Ásgeirs. Hann á að hafa – í krafti áhrifa sinna í Glitni – beitt Lárus og Bjarna fortölum og þrýstingi og hvatt til þess að þeir Lárus og Magnús Arnar samþykktu lánveitinguna, honum og Fons til hagsbóta.
Gestur svaraði því til að Jón Ásgeir hefði aldrei setið í stjórn bankans eða framkvæmdastjórn hans og hefði jafnframt aldrei haft neitt boðvald yfir starfsmönnum Glitnis. Hann hefði þó vissulega verið eigandi í félögum sem áttu stóran hlut í bankanum. Það væri óumdeilt.
Því hefur verið haldið fram að við lánveitinguna hafi innri reglur, þar á meðal lánareglur bankans, verið brotnar. Gestur sagði að Jón Ásgeir hefði aldrei þekkt þessar innri reglur. Hann hefði ekki haft neinar skyldur til að kynna sér þær – þar sem hann var ekki starfsmaður bankans – og þá hefði hann í sjálfu sér ekki haft neinn aðgang að þeim.
Jón Ásgeir hefði ekki heldur vitað hvort ákvörðunin um lánveitinguna hefði verið tekin á fundi áhættunefndar eða á milli funda. Hann vissi ekki heldur í hvaða áhættuflokki Fons eða FS38 voru þegar lánveitingin var samþykkt.
„Það liggur ekkert fyrir sem sýnir að hann hafi reynt að sannfæra meðákærðu, Lárus og Magnús Arnar, um að ganga gegn hagsmunum bankans,“ sagði Gestur. Ekkert í samskiptum hans við þá gæfi tilefni til að ætla að þeir væru að brjóta gegn lögum við meðferð málsins.
Lárus og Magnús Arnar hefðu ekki orðið varir við þennan meinta þrýsting frá Jóni Ásgeiri, eins og sérstakur saksóknari hefði haldið fram. Í raun hefðu þeir Jón Ásgeir og Magnús Arnar ekki þekkst fyrr en eftir atvik málsins.
Þá hefðu sex fyrrverandi stjórnarmenn Glitnis, sem allir gáfu vitnaskýrslu, ekki orðið varir við neinn þrýsting af hálfu Jóns Ásgeirs eftir að FL Group og Baugur fengu yfirráð yfir bankanum í aprílmánuði árið 2007.
Gestur sagði einnig mikilvægt að hafa í huga að sex milljarða lánveitingin hefði ekki einu sinni verið í samræmi við þær tillögur sem Jón Ásgeir hefði nefnt til sögunnar í tölvupóstum í febrúarmánuði árið 2008. „Tillagan breyttist í meðförum starfsmanna bankans,“ sagði Gestur.
Gestur sagði að málatilbúnaður saksóknara væri þverstæðukenndur. Því væri haldið fram á einum stað að Jón Ásgeir hefði þrýst á stjórnendur bankans um óeðlilegar lánveitingar og ráðið í raun öllu í bankanum. „Af hverju er hann þá að standa í stappi í svona máli í fimm til sex mánuði og síðan er ekki einu sinni farið eftir því sem hann lagði til?“ spurði Gestur.