Jarðfræðingur á Veðurstofu Íslands segir að ekkert bendi til að gosórói sé í grennd við Bárðarbungu og Kistufell þar sem jarðskjálftahrina hefur gengið yfir í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni hafi skjálftar byrjað að mælast á mánudag og síðan þá hafi nokkrar hrinur gengið yfir.
Eins og greint var frá á mbl.is fyrr í dag þá mældist jarðskjálfti að stærðinni 3,7 með upptök sín 11,1 km austnorðaustur af Bárðarbungu klukkan 14.41 í dag. Einar Kjartansson, sérfræðingur í jarðskjálftarannsóknum og þróun á Veðurstofu Íslands, segir að þetta sé stærsti skjálfti sem mælst hafi á svæðinu í þessari viku. Hins vegar séu jarðskjálftar á þessum slóðum alvanalegir og ekkert sem bendi til gosóróa.
Hann segir að grannt sé fylgst með jarðskjálftahrinunni áfram enda hafi töluvert margir eftirskjálftar mælst í kjölfarið.