Það virðist beinlínis vera stefna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að auka misskiptingu í samfélaginu, hygla stóreignafólki en hækka gjöld á sjúklinga og námsmenn. Þetta segir þingflokkur Vinstri grænna, sem andmælir aukinni misskiptingu í samfélaginu.
Eftir fyrsta þingvetur ríkisstjórnarinnar segja vinstri græn að pólitískar áherslur hennar séu farnir að sjást vel.
„Fyrsta mál ríkisstjórnarinnar var að lækka veiðigjöld upp á 6,4 milljarða króna á ársgrundvelli og undir lok þessa þings var sérstaka veiðigjaldið lækkað enn frekar þannig á árunum að 2013, 2014 og 2015 er búið að lækka veiðigjöldin alls um 18,8 milljarða,“ segir í yfirlýsingu frá þingflokknum.
Að sama skapi hafi ríkisstjórnin ákveðið að framlengja ekki auðlegðarskatt og þar með afsalað almenningi tekjum upp á tíu milljarða frá og með árinu 2015.
„Í útfærslu á skuldalækkunum ríkisstjórnarinnar birtist sama forgangsröðun. Þar eiga þeir sem hafa hæstar tekjur eða eiga mestar eignir kost á hámarksniðurfellingu skulda. Vaxtabætur handa tekjulægri hópum hafa á sama tíma verið stórlækkaðar. Frá hruni hefur leigjendum fjölgað verulega en fram kemur í skýrslu Hagstofunnar að þetta eigi sérstaklega við um fólk með lágar tekjur. Ekkert er að finna í nýjum tillögum ríkisstjórnarinnar um þennan hóp.
Sú endurráðstöfun fjármuna sem núverandi ríkisstjórn hefur staðið fyrir á fyrsta starfsári sínu mun stórauka ójöfnuð í samfélaginu með neikvæðum félagslegum og hagrænum afleiðingum.“
Yfirlýsingu þingflokks VG má sjá í heild hér að neðan: