„Þetta var bara alger snilld“

„Þetta var svakalega flott, alger þjóðhátíðastemning,“ segir Pétur Steingrímsson, varðstjóri hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum, en gríðarleg fagnaðarlæti voru í Eyjum í nótt þegar handknattleikslið ÍBV í karlaflokki kom heim með Herjólfi eftir að hafa landað Íslandsmeistaratitlinum með sigri á Haukum í æsispennandi leik á Ásvöllum í Hafnarfirði í gærkvöldi.

Hundruð manna voru samankomin á hafnarbakkanum þegar Herjólfur sigldi inn á höfnina í Vestmannaeyjum með leikmennina um borð og var þeim ákaft fagnað. Fólk lét það ekki á sig fá þó seint væri í miðri viku en skipið kom til Eyja um klukkan hálf tvö í nótt. Gott veður var hins vegar, blanka logn og blíða. Þegar handknattleiksliðið kom með rútu á Hvolsvöll beið lögreglan þar eftir þeim og fylgdi þeim með blikkandi ljósum í Landeyjahöfn. Þar biðu 400-500 stuðningsmenn liðsins sem verið höfðu á leiknum og var leikmönnunum fagnað ákaft þar.

Flugeldum var skotið á loft bæði í landi sem og á Herjólfi og skipsflautur skipsins þeyttar sem og annarra skipa í höfninni þegar komið var til Vestmannaeyja. Ennfremur hafði kertum verið raðað á Heimaklett og Ystaklett. Farið var með handknattleiksliðið upp á sérstakan pall eftir að það steig í land og héldu fagnaðarlætin áfram þar sem meðal annars voru sungnir baráttusöngvar og leikmennirnir kysstir og knúsaðir.

Fagnaðarlætin héldu síðan áfram fram eftir nóttu og gengu þau einstaklega vel fyrir sig að sögn Péturs og engin útköll hjá lögreglunni. „Þetta var bara alger snilld, það er ekki hægt að segja annað um þetta.“ Málið er ekki aðeins skylt Pétri sem Vestmannaeyingi heldur er sonur hans, Arnar Pétursson, þjálfari liðsins og barnabarn leikmaður þess. „Það má segja að ég hafi tvöfalda ástæðu til þess að fagna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert