Allt að þrjú þúsund ungmenni hafa misst fótanna í lífsbaráttunni áður en hún hefst fyrir alvöru, fordómar fara vaxandi í samfélaginu sérstaklega í garð innflytjenda, um 9% landsmanna eru undir fátækramörkum og 13% eiga á hættu að verða fátækir.
Þetta eru niðurstöður nýrrar skýrslu, Hvar þrengir að? sem unnin var fyrir Rauða krossinn. Þetta er í 5. sinn á 20 árum sem slík skýrsla er unnin, til að finna þá hópa sem búa við verstu kjörin í íslensku þjóðfélagi.
Markmiðið er að Rauði krossinn geti í kjölfarið skilgreint hvar þörfin fyrir aðstoð er mest hverju sinni og vakið athylgi almennings og stjórnvalda á aðstæðum berskjaldaðra á Íslandi.
Fjölmennasti hópurinn sem nýtur framfærslustyrks hjá sveitarfélögum er ungt fólk, sérstaklega ungir karlar. Það er jafnframt sá hópur sem veldur mestum áhyggjum í félagsþjónustunni.
Atvinnuleysi er mest meðal aldurshópsins 18-24 ára eða 7,7% meðan meðaltals atvinnuleysi á landinu er 4,5%. Óttast er að þessi hópur lokist til lengri tíma í fátæktargildru.
Í síðustu könnun Rauða krossins frá árinu 2010 var bent á að það þyrfti að huga sérstaklega að börnum og ungmennum í viðkvæmum aðstæðum því þau yrðu hvað verst úti við langvarandi áhrif efnahagskreppu og eigi á hættu að festast í vítahring fátæktar. Þessi niðurstaða staðfestir þá ábendingu, að sögn Rauða krossins.
Þá er ljóst að innflytjendur sæta vaxandi fordómum, sérstaklega þeir sem koma frá löndum utan Evrópu. Þannig telja 44% þátttakenda í spurningarvagni Félagsvísindastofnun HÍ fyrir Rauða krossinn að fólk af erlendum uppruna mæti mestum fordómum í íslensku samfélagi.
Fagaðilar sem rætt var við segja að umburðarlyndi gagnvart útlendingum fari minnkandi. Gera verði betur í málum útlendinga, atvinnuleysi sé mun hærra í þeirra röðum, oft hafi þeir lítið tengslanet og eigi erfitt með að aðlagast samfélaginu. Börn þeirra standi einnig verr að vígi fyrir framtíðina en jafnaldrar þeirra vegna skorts á stuðningi í skólakerfinu og hjá foreldrum, oft vegna tungumálaerfiðleika. Þetta rímar við niðurstöður kannana landsfélaga Rauða krossins í Evrópu þar sem greinileg merki eru um vaxandi óþol gagnvart útlendingum.
Í skýrslu Rauða krossins nú kemur einnig fram að stéttaskipting sé meiri í íslensku samfélagi en fyrir áratug, og misskipting lífsgæða hafi aukist. Fleiri njóta framfærslustyrks sveitarfélaga en áður, 9% landsmanna eru undir fátækramörkum og 13% til viðbótar eiga á hættu að verða fátækir beri eitthvað út af eða aðstæður breytast.
Þannig hafi fjöldi fólks ekki efni á heilbrigðis- eða tannlæknaþjónustu fyrir sig og börn sín og verði að velja milli hvaða reikninga skal borga við mánaðamót. Þetta er einnig í samræmi við samantektir Rauðakrossfélaga í Evrópu sem benda til að mjög fjölgi í hópi nýfátækra og að þeir fátæku verði fátækari.
Skýrslan byggir á svörum frá þátttakendum í spurningavagni Félagsvísindastofnunar HÍ, upplýsingum úr spurningarlista sem barst frá um 50 sérfræðingum í félags-, heilbrigðis- og skólakerfinu um allt land, og viðtölum við 30 manns sem starfs síns vegna búa yfir upplýsingum um þá sem eru berskjaldaðir í samfélaginu.
Það vekur athygli að hóparnir sem búa við kröpp kjör, félagslega einangrun og fordóma eru í stórum dráttum þeir sömu í öllum fimm könnunum Rauða krossins á síðustu 20 árum. Niðurstaða skýrslunnar mun nýtast Rauða krossinum endurskoðun á verkefnum félagsins næstu árin. Rauði krossinn mun einnig beita sér fyrir því að leiða þá sem málið varða saman og stórefla þjónustu og málsvarastarf til þeirra hópa sem verst standa.
Í kjölfar samskonar kannana Hvar þrengir að? sem gerðar voru 1994, 2000, 2006, og 2010 jók Rauði krossinn til að mynda mjög starf sitt með geðfötluðum, efldi heimsóknarþjónustu fyrir aldraða og sjúka til að rjúfa félagslega einangrun, og hleypti af stokkunum verkefnum í þágu innflytjenda.
Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar á málþingi sem Rauði krossinn heldur í dag föstudaginn 15. maí, kl. 13:30-15:15 á Grand Hótel, í Hvammi. Jón Gnarr borgarstjóri heldur setningarávarp.