Auknar heimildir til að hafna áfengi

Frá Vínbúð ÁTVR.
Frá Vínbúð ÁTVR. Heiðar Kristjánsson

Áfengis- og tóbaksverslun ríkissins, ÁTVR, fékk í gærkvöldi auknar heimildir til að hafna að taka til smásölu í verslunum Vínbúðarinnar áfengi. Meðal annars er heimilt að hafna áfengi ef umbúðir þess líkjast svo annarri vöru sem boðin er til sölu eða auglýst á almennum markaði hér á landi að neytendur geta ekki auðveldlega greint á milli þeirra.

Markmiðið með ofangreindri heimild er að tryggja að ekki séu á boðstólum áfengar vörur sem líkjast um of óáfengum vörum sem eru seldar eða auglýstar til sölu á almennum markaði hérlendis. „Ætlunin er því að stemma stigu við því að raunveruleg hætta skapist á því að fólk geri ekki greinarmun á áfengum vörum og óáfengum og að áfengrar vöru verði neytt án ásetnings eða hún að öðru leyti tekin í misgripum fyrir óáfenga vöru,“ sagði í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Ætlunin er að ÁTVR framkvæmi mat á því hvort ruglingshætta sé yfirvofandi við undirbúning ákvörðunar um vöruval.

Samkvæmt frumvarpinu er ÁTVR heimilt að hafna áfengi ef varan sjálf, umbúðir hennar eða markaðssetning:

  • höfðar sérstaklega til barna eða ungmenna yngri en 20 ára, m.a. hvað varðar texta, myndmál eða form, 
  • sýnir börn eða ungmenni yngri en 20 ára, 
  • gefur til kynna að áfengi auki líkamlega, andlega, félagslega eða kynferðislega getu, 
  • gefur til kynna að áfengi hafi lækningaeiginleika, 
  • felur í sér happdrætti, tilboð eða kaupauka, 
  • hvetur til óhóflegrar neyslu áfengis, 
  • tengist aðstæðum þar sem neysla áfengis skapar slysahættu eða er refsiverð, 
  • skírskotar eða hvetur til refsiverðrar háttsemi, 
  • skírskotar eða hvetur til neyslu ólöglegra ávana- og fíkniefna.

Þá er ÁTVR heimilt að hafna áfengi sem inniheldur koffein og önnur örvandi efni.

Verslun með áfengi og tóbak

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert