Óvíst með fordæmi samninga Atlanta

Icelandair þota leggur af stað
Icelandair þota leggur af stað Þórður Arnar Þórðarson

Þrátt fyrir að samningar hafi náðst í kjaradeilu flugmanna hjá Atlanta í gær er alls óvist með fordæmisgildi þess í deilu flugmanna Icelandair. Samtök atvinnulífsins eru með samningsumboð fyrir bæði flugfélögin en þau eru ólík og starfsumhverfi flugmannanna því einnig.

Nýr kjara­samn­ing­ur Fé­lags ís­lenskra at­vinnuflug­manna og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins fyr­ir hönd flug­fé­lags­ins Atlanta var und­ir­ritaður í gær en flug­menn Atlanta höfðu boðað yf­ir­vinnu­bann ótíma­bundið frá klukk­an 6 í morgun. Hvorki gengur né rekur hins vegar í kjaradeilu flugmanna Icelandair, lög voru sett á verkfall flugmanna fyrir helgi og ekki hefur verið boðað til næsta samningafundar.

Jón Þór Þorvaldsson, varaformaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, segir áhrif samninga FÍA og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins fyr­ir hönd Atlanta engin áhrif hafa á kjaradeilu FÍA og Icelandair. „Við erum með lög á okkur og það eru engar samningaviðræður í gangi. Þetta hefur ekki áhrif á samningaviðræður sem eru ekki til staðar, það er nokkuð ljóst.“

Spurður hvort kröfur flugmanna Atlanta hafi verið sambærilegar og kröfur flugmanna Icelandair segir Jón Þór: „Atlanta er í raun annars konar flugrekandi og vinnur í öðru umhverfi. Þá fengu flugmenn hjá Atlanta gríðarlega góða launaleiðréttingu árið 2011. Þannig að það er kannski ekki hægt að jafna þessu saman í fljótu bragði og segja að um sömu kröfur sé að ræða.“

Hvað varðar hugsanlegt fordæmisgildi samningana fyrir kjaradeilu flugmanna Icelandair segist Jón Þór ekki vilja fullyrða of mikið. „Það verður að líta til fleiri hluta. Það er annars konar vinna sem flugmenn Atlanta vinna. Þeir vinna eingöngu í leiguflugi, eins og starfsemi Atlanta er í dag, og eru úti í þrjár vikur og svo þrjár vikur heima. Þannig að þeir vinna raunverulega ekki nema hálft árið. Það er því ansi margt sem er ólíkt.“

Aflýsa flugi vegna vöntunar á flugmönnum

Sem áður segir setti Alþingi lög á verkfall flugmanna Icelandair fyrir helgi og eru verk­fallsaðgerðir sem Fé­lag ís­lenskra at­vinnuflug­manna hóf gegn Icelanda­ir 9. maí óheim­il­ar. Deiluaðilum er heim­ilt að semja um kjara­mál, en óheim­ilt að knýja fram kjara­bæt­ur með vinnu­stöðvun.

Mikið reiði skapaðist meðal flugmanna vegna laganna og sögðu þeir í kjölfarið að ekki væri hægt að neyða þá til að vinna yfirvinnu. Hefur það orðið til þess að Icelandair þurfti að aflýsa flugi til Bandaríkjanna í gær og er útlit fyrir að fleiri ferðum vestur verði frestað neiti flugmenn að vinna yfirvinnu. 

Þá má geta þess að yf­ir­vinnu­bann Flug­freyju­fé­lags Íslands hefst á morg­un og fé­lagið hefur boðað til tólf stunda vinnustöðvunar 27. maí og 24 stunda vinnustöðvunar dag­ana 6. og 14. júní. Hafi samn­ing­ar ekki náðst fyr­ir 19. júní hefst ótíma­bundið verk­fall flugliða þann dag.

Icelandair tilkynnti í dag um fjórar flugferðir til viðbótar sem felldar eru niður, en í gær var tilkynnt um að flugferðir til og frá Denver væru felldar niður. Á vefsvæði Icelandair má sjá tilkynningu um að flugferðir til New York og Toronto í Kanada, fram og til baka, séu felldar niður. Icelandair segir ástæðuna vöntun á flugstjórum og flugmönnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert