Framhald ESB-málsins ekki ákveðið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra mbl.is

„Staðan er auðvitað sú að það er við völd ríkisstjórn sem hefur engin áform um að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um stöðu ESB-málsins, nú þegar ljóst er að þingsályktunartillaga Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að draga ESB-umsóknina til baka verður ekki afgreidd fyrr en í fyrsta lagi í haust. Sigmundur Davíð segir þann hluta tillögunnar sem sneri að því að draga umsóknina til baka hafa verið áréttingu á stefnu ríkisstjórnarinnar.

Hafi umboð frá þjóðinni

„Þessi þriðjungur þingsályktunartillögunnar var liður í því að árétta það sem þegar hefur komið fram hjá ríkisstjórninni. Það var kannski ekki síst skaði að ekki skyldi nást að klára seinni hluta tillögunnar, þ.e.a.s. varðandi það að menn fari ekki í svona leiðangur án þess að hafa til þess umboð frá þjóðinni. Það er náttúrlega grundvallaratriði í þessu að þetta ferli var sett af stað án þess að menn leituðu umboðs frá almenningi. Það var gert af þeim sem nú hafa hæst um að ekki sé hægt að hætta þessu ferli, án þess að leita til almennings. Þannig að við erum eindregið þeirrar skoðunar að þegar svona stórar ákvarðanir eru teknar, eins og að sækjast eftir því að komast inn í ESB, þá þurfi að leita til almennings með það.“

– Kæmi til greina að samþykkja á haustþingi að draga umsóknina til baka og hafa síðan þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort þjóðin vilji fara inn eða ekki? Ef hún vill fara inn, þá verði málið tekið upp aftur? „Menn eru svo sem með ýmsar hugmyndir í þessu efni. En við höfum ekkert rætt framhaldið hvað þetta varðar. Þessi tillaga snerist um að árétta það sem ríkisstjórnin hefur þegar sagt, að hún telji ekki að það eigi að standa í þessum viðræðum. Því viðræður fela í sér yfirlýsingu um að menn vilji inn.“

„Snýst bara um að árétta“

– Þú nefnir þriðjung tillögunnar. Þar segir að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að draga til baka umsókn Íslands um aðild að ESB. Jafnframt skuli Alþingi álykta að ekki skuli sótt um aðild að ESB á ný án þess að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort íslenska þjóðin stefni að aðild að ESB.

„Það er ekki síst seinni hlutinn sem ég vildi að hefði tekist að klára. Hitt snýst bara um að árétta afstöðu ríkisstjórnarinnar.“

– Sérðu fyrir þér að ályktunin geti verið tekin fyrir á haustþingi?

„Menn hafa ekkert rætt það sérstaklega hvort þörf sé á því.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert