Hugmynd um nýja lóð fyrir Rétttrúnaðarkirkjuna

Tölvugerð mynd/Reykjavíkurborg

Tillaga um að flytja fyrirhugaða kirkju Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar frá lóð við Mýrargötu á auða lóð, þar sem nú er bílastæði gegnt Héðinshúsinu, var á dagskrá umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar í fyrradag.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram tillögu á fundi borgarráðs 28. nóvember sl. um að skoðað yrði hvort unnt væri að koma kirkjunni fyrir á horni Mýrargötu og Seljavegar, í því skyni að ná meiri sátt um bygginguna.

Fram kom á fundinum að gerðar hefðu verið teikningar sem sýndu nýja staðsetningu kirkjunnar. Skipulagsyfirvöld hafa einnig átt fund með fulltrúum Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og rússneska sendiráðsins vegna hugmyndarinnar.

Hugmynd á fundi íbúasamtaka

„Við lögðum fram tillögu í borgarráði um að þetta yrði skoðað vegna athugasemda og mótmæla sem bárust við deiliskipulagi á Nýlendugötureitnum þar sem kirkjan er staðsett úti við Mýrargötu,“ sagði Júlíus Vífill Ingvarsson, oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokks og fulltrúi í ráðinu. Hann sagði að hugmyndin hefði komið fram á fundi með Íbúasamtökum Vesturbæjar.

Séra Timur Zolutuskiy, prestur Rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, sagði að rekja mætti aðdraganda kirkjubyggingarinnar til ársins 2002 þegar Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, átti fund með Alexei II. patríarka. Kirkjan fékk lóð við Mýrargötu og var hún helguð og lagður hornsteinn 2011.

Séra Timur sagði nýja lóð hafa sína kosti og galla. Hann sagði málið vera til umræðu í borgarkerfinu. Einnig eru kirkjuyfirvöld í Moskvu að skoða málið. Hann sagði það ekki vera sitt að taka ákvörðun um flutning kirkjunnar. Séra Timur kvaðst ekki vilja að þetta mikilvæga hagsmunamál safnaðarfólks í rétttrúnaðarkirkjunni yrði notað til atkvæðaveiða fyrir kosningar.

Íbúar við Mýrargötu og fleiri töldu að kirkjubyggingin passaði ekki inn í umhverfið og væri of stór til að vera á þeim stað sem henni var ætlað að rísa. Íbúasamtök Vesturbæjar hafa gagnrýnt að kirkjan rísi við Mýrargötu og m.a. bent á að þar sé gert ráð fyrir örfáum bílastæðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka