Skjár Einn og Sagafilm hafa ráðist í framleiðslu á íslenskri útgáfu þrautaþáttaraðarinnar bandarísku Minute To Win It og hefjast tökur í lok júní.
Í þáttunum þurfa einstaklingar og tveggja manna lið að leysa gríðarerfiðar þrautir og hafa eina mínútu til að leysa hverja þeirra. Takist það hækkar vinningsupphæðin og eftir því sem fleiri þrautir eru leystar verða þær erfiðari og upphæðin hærri eftir því.
Kynnir íslensku þáttanna verður Ingólfur Þórarinsson, jafnan nefndur Ingó veðurguð, og verða haldin inntökupróf fyrir þá sem vilja keppa í þáttunum í Smáralind í næstu viku, að sögn Pálma Guðmundssonar, dagskrárstjóra SkjásEins. 18 ára og eldri geta þreytt það próf og verður fyrsti þátturinn sýndur á SkjáEinum 18. september. Þættirnir verða tíu.
„Það eru stórir vinningar í boði í þættinum,“ segir Pálmi og spurður að því hver stærsti vinningurinn verði segir hann að líklega verði það bifreið eða afnot af biðreið. „Við byggjum okkar útgáfu á verðlaunum, ekki peningum,“ segir Pálmi.
Keppendur fá þjálfun í öllum þrautum, geta æft sig heima og mæta svo í uppptökur í lok júní. „Við erum að leita að fólki sem hefur hæfileika til að leysa þrautir almennt, ekki eina tegund af þrautum heldur margs konar þrautir. Okkur langar að hafa í þættinum fólk sem er klókt í að leysa fjölbreyttar þrautir. Við mannfólkið erum misgóð í þessu,“ segir Pálmi.
Bandaríska þáttaröðin hefur verið sýnd á Skjá Einum og verður sú íslenska að fylgja ströngum reglum í framleiðslu þar sem þættirnir eru sk. format-þættir. „Við erum með ákveðna framleiðslubiblíu sem við vinnum eftir en sumt verðum við að gera upp á íslenska mátann og vera hugmyndarík,“ segir Þórhallur Gunnarsson, framleiðslustjóri Sagafilm, um framleiðslu þáttanna.