Samtök móðurmálskennara veittu fyrir helgi aðstandendum sjónvarpsþáttanna Orðbragð sem sýndir voru í sjónvarpi Ríkisútvarpsins viðurkenningu sem tengist íslensku máli. Efnistök þáttastjórnenda þykja vitna jafnt um ást á málinu sem um færni í meðferð þess í nútímalegu samhengi.
„Þykir þeim hafa tekist að búa til sérlega áhugaverðan og skemmtilegan þátt sem höfðaði til allra aldurshópa. Í honum nálgast þau íslenska tungu á skapandi hátt og sýna okkur fram á að enn er mikið lífsmagn í tungumálinu,“ segir í tilkynningu frá Samtökum móðurmálskennara.