Starfsemin gengur þrátt fyrir verkfall

Hjúkrunarheimilið Mörk
Hjúkrunarheimilið Mörk mbl.is/Gúna

Starfsemi hjúkrunarheimilanna Eirar og Markar hefur gengið ágætlega frá því að sólarhrings vinnustöðvun sjúkraliða hófst á miðnætti í nótt.  Fundað var í kjaradeilu Félags sjúkraliða og starfsmönnum SFR við Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu um helgina. Næsti fundur í deilunni er boðaður síðdegis. 

Gísli Páll Pálsson, forstjóri heimilisins og formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, segir að heimilið hafi fengið nauðsynlegustu undanþágur og því séu sjúkraliðar á vakt. Þó er ekki víst að allar vaktir séu fullmannaðar. 

Aðspurður hvaða afleiðingar vinnustöðvunin hafi fyrir íbúa Markar segir Gísli Páll að þeir muni fá minni þjónustu í lengri tíma. Íbúar muni ef til vill ekki komast í bað og þá fari þeir einnig seinna fram úr rúmum. Allir fái þó mat og lyf. „Allir eru frekar vonsviknir,“ segir Gísli Páll um viðbrögð íbúa.

Forðast að senda íbúa af heimilinu

Sigurður Rúnar Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Eirar, segir að starfsemi Eirar hafi gengið frá miðnætti. „Þetta verður erfiðara eftir því sem það lengist í þessu,“ segir hann.

Einnig fengust undanþágur vegna starfsemi Eirar og mættu því sjúkraliðar til vinnu sem annars hefðu setið heima vegna vinnustöðvunarinnar.

Sigurður Rúnar segir að forðast verði að senda íbúa af heimilinu ef til allsherjarverkfalls kemur. „Við leggjumst öll á eitt að láta þetta ganga.“

Jaðrar við að loka þurfi sumum stofnunum

Krist­ín Á. Guðmunds­dótt­ir, formaður Fé­lags sjúkra­liða, sagði í gærkvöldi í samtali við mbl.is að það væri ekki hlut­verk sjúkra­liða á stofn­un­um að taka á sig fjár­hagserfiðleika stofn­ana með því að vinna á lægri laun­um en sjúkra­liðar sem starfa hjá rík­inu. Staðan hjá sum­um stofn­un­um sé svo al­var­leg að það jaðri við að það þurfi að loka þeim.

300 sjúkra­liðar í Sjúkra­liðafé­lagi Íslands leggja niður störf ásamt um 150 starfs­mönn­um hjá SFR. Þau fyr­ir­tæki og stofn­an­ir sem verk­fallið á miðnætti nær til eru: Ás Hvera­gerði, Dal­bær, Eir, Grund, Hlévang­ur, HNLFÍ, Horn­brekka, Hrafn­ista Reykja­vík, Hrafn­ista Hafn­ar­f­irði, Hrafn­ista í Kópa­vogi, Hrafn­ista Reykja­nesi, Kumb­ara­vog­ur, Lund­ur, Mörk, SÁÁ, Sjálfs­bjarg­ar­heim­ilið, Skjól, Skóg­ar­bær, Sól­tún og Sunnu­hlíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert