Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra heimsótti í dag embætti Ríkisskattstjóra og kynnti sér móttöku umsókna vegna Leiðréttingarinnar hjá embættinu.
„Það er aðdáunarvert hvernig Ríkisskattstjóri hefur staðið að málum og starfsfólk hér hefur unnið kraftaverk við undirbúningsvinnuna, ekki hvað síst undanfarna daga,“ sagði forsætisráðherra um leið og hann færði starfsmönnum Ríkisskattsstjóra blóm í tilefni dagsins.
Í frétt á vef forsætisráðuneytisins kemur fram að óhætt sé að segja að mikið hafi gengið á hjá embættinu í dag, en opnað var fyrir umsóknir um leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána á heimasíðu Ríkisskattstjóra, leidrettingin.is, í gær. Opið hafði verið fyrir umsóknir í einn sólarhring þegar forsætisráðherra kíkti í heimsókn. Þá þegar lágu fyrir ríflega 20 þúsund staðfestar umsóknir.
Athygli vakti að umsóknir höfðu borist frá tæplega 80 þjóðlöndum þegar þar var komið sögu, flestar frá Noregi en um 700 Íslendingar búsettir þar höfðu óskað eftir leiðréttingu á verðtryggðum húsnæðisskuldum sínum, segir í fréttinni.
Hér er um að ræða eina flóknustu aðgerð af þessu tagi sem ráðist hefur verið í hjá Ríkisskattsstjóra. Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattsstjóri kynnti forsætisráðherra undirbúning og framkvæmd Leiðréttingarinnar og þá vinnu sem tekur nú við.
Umsóknartímabilið rennur út 1. september næstkomandi og fyrstu niðurstöður leiðréttingarinnar munu liggja fyrir í haust.