Starfsmenn Icelandair grýttir

Það er misjafn sauður í mörgu fé og á það …
Það er misjafn sauður í mörgu fé og á það jafnt við flugfarþega sem aðra. Ljóst er að sumir eiga afar erfitt með að halda aftur af reiðinni og láta hana þar af leiðandi bitna á saklausu starfsfólki. mbl.is/Sigurgeir

Icelandair hefur þurft að aflýsa mörgum ferðum undanfarna daga í tengslum við kjaradeilu félagsins við Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og Flugfreyjufélag Íslands (FFÍ). Dæmi eru um að ósáttir farþegar hafi tekið út reiði sína á starfsmönnum á þjónustuborði Icelandair á Keflavíkurflugvelli, m.a. grýtt þá samkvæmt heimildum mbl.is.

Ekki fylgir sögunni hvort einhvern hafi sakað en ljóst er að starfsfólki sem hefur orðið fyrir þessu aðkasti er brugðið.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir í samtali við mbl.is að hann þekki ekki þetta tiltekna dæmi, þ.e. að starfsmaður hafi verið grýttur. „Ég veit bara að það er gríðarlegt álag og þetta eru mjög erfiðar aðstæður að vinna í. Þetta fólk er að vinna frábært starf við þessar erfiðu aðstæður,“ segir Guðjón.

Það er óhætt að fullyrða að viðskiptavinir Icelandair séu óánægðir með þá stöðu sem sé uppi en frá því að Alþingi samþykkti sl. fimmtudag lög á verkfall starfsmanna FÍA hefur Icelandair neyðst til að aflýsa nokkrum ferðum sökum manneklu, þ.e. ekki hafa fengist flugmenn eða flugfreyjur til að vinna yfirvinnu.

Icelandair sendi í morgun frá sér tilkynningu um röskun á flugi. Mikil óvissa er ríkjandi varðandi flug næstu daga þar sem ekki hefur náðst samkomulag í kjaradeilunni og ekki hægt að manna sumar vélar vegna yfirvinnubanns. Icelandair þarf því að meta stöðuna dag frá degi og ekki útilokað að áfram verði röskun á flugi næstu daga á meðan deilan stendur óleyst.

Næsti samningafundur í kjaradeilu Icelandair og FÍA fer fram á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert