Tilkynning barst í dag frá japönsku skemmtiferðaskipi á leið til landsins þess efnis að inflúensa hefði skotið upp kollinum um borð en tugir farþega hafa fundið fyrir einkennum hennar. Samtals eru tæplega eitt þúsund farþegar um borð en skipið kemur hingað frá Noregi á leið sinni til Bandaríkjanna.
„Þetta er nú ekkert alvarlegt held ég. Þetta er einhver inflúensulíking í einhverjum farþeganna,“ segir Haraldur Briem sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is en hann hefur verið í sambandi við lækna um borð í skipinu. Miðað við þær upplýsingar sem hann hafi frá læknunum sé ekki um alvarleg veikindi að ræða. Skipið komi til hafnar í fyrramálið og þá verði farið um borð og lagt mat á stöðuna og rætt betur við læknana um borð. Síðan verði tekin ákvörðun um framhaldið.
„Það virðast ekki margir vera veikir. Einhverjir tugir sem hafa fundið fyrir einkennum. En það er enginn alvarlega veikur eða neitt slíkt,“ segir Haraldur. Spurður hvort hann teldi þörf á að setja skipið í sóttkví eða eitthvað slíkt sagðist hann ekki telja neina þörf á slíkum aðgerðum miðað við þær upplýsingar sem hann hefði frá læknunum um borð. Heimildir mbl.is herma að fjöldi þeirra sem fundið hafi fyrir einkennum sé um þrjátíu.