Allar eldflaugarnar þrjár, sem hópur meistaranema í verkfræði við Háskólann í Reykjavík skaut á loft á Mýrdalssandi á fimmtudag, eru nú komnar í leitirnar.
Að sögn Ívars Kristinssonar, eins úr hópnum, var flogið yfir svæðið í gær og fundust þá tvær flauganna í grennd við skotstaðinn. Önnur af stærri flaugunum tveimur sem skotið var á loft fannst strax á fimmtudaginn.
Næsta skref verður að sækja flaugarnar og segist Ívar gera ráð fyrir að hópurinn geri sér ferð austur á morgun til þess. Það lítur þó út fyrir að önnur af stærri flaugunum sé mikið skemmd.