Farþegar afar ósáttir við raskanir

mbl.is

Vandræði Icelandair með að manna flugáhafnir eru byrjuð að rata í erlenda fjölmiðla en samkvæmt skoska fjölmiðlunum Evening Times urðu tugir flugfarþega strandaglópar á Íslandi á leið sinni til Glasgow.

Kemur fram í fréttinni að flugvélin til Glasgow hafi átt að fara frá Keflavíkurflugvelli klukkan 7:35 í gærmorgun. En vegna ákvörðunar flugmanna hjá Icelandair um að vinna aðeins sammkvæmt fyrirfram útgefinni flugáætlun en neita að vinna yfirvinnu sé áætlun félagsins í molum. Talsmaður flugfélagsins segir í viðtali við Evening Times að ástæðan fyrir seinkunum sé sú að ekki hafi verið fullmanna áhöfn þotunnar. Allt væri reynt til þess að koma farþegum á áfangastaði sína eins fljótt og auðið er.

Flugvél Icelandair fer til Glasgow klukkan 8:30 en farþegarnir, sem áttu pantað flug í gærmorgun, þurftu að gista á hóteli á Íslandi í nótt vegna aðgerða flugmanna. Einhverjum tókst að komast með flugi til London í gærkvöldi og þaðan með tengiflugi til Glasgow.

Rose Cooke, 73 ára og eiginmaður hennar Mark 75 ára frá Hamilton eru að reyna að komast til síns heima frá Seattle þar sem þau voru í heimsókn hjá dóttur sinni. Í viðtali við Evening Times segir hún að Icelandair hafi tilkynnt þeim um að fluginu frá Seattle hafi verið aflýst og þeim boðið að fljúga  New York, Amsterdam, London og þaðan til Glasgow en það hefði verið of mikið þau. Þetta var á fimmtudag. Síðan í gær var þeim tilkynnt um að fluginu hefði verið aflýst aftur. „Ég fylltist skelfingu. Mig vantar lyfin mín en ég get verið tvo daga án þeirra. Þeir gáfu okkur ekki möguleika á beinu flugi til London,“ segir hún í samtali við Evening Times.

Fleiri farþegar lýsa því hvernig seinkanir og aflýsingar á flugi hafi komið við þau og eins eru margir mjög ósáttir sem hafa ritað inn á Facebooksíðu flugfélagsins. 

Svo virðist sem flest flug séu nánast á áætlun frá landinu í morgunsárið samkvæmt vef Keflavíkurflugvallar.

Túristi hefur fjallað um réttindi flugfarþega en hann virðist vera mjög á reiki.

Alls 86 leggir á flugáætlun Icelandair hafa fallið niður vegna verkfallsaðgerðanna.
29 flugferðir féllu niður 9. maí, 21 ferð 11. maí, 6 ferðir 12. maí, 3 ferðir 13. maí og 4 ferðir 14. maí.
 Þá féllu niður 5 flugferðir 15. maí, 1 ferð 16. maí, 4 ferðir 17. maí, 3 ferðir 18. maí og 10 í gær.

Ótímabundið yfirvinnubann hjá Flugfreyjufélagi Íslands hefur þegar raskað áætlunarflugi Icelandair og kemur til viðbótar áhrifum þess að flugmenn neita að vinna yfirvinnu.

Yfirvinnubannið hófst kl. 6 að morgni sl. sunnudags og boða flugfreyjur svo verkfall frá kl. 6 og til miðnættis næsta þriðjudag. Frekari aðgerðir eru svo boðaðar.

Sigríður Ása Harðardóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir mikið bera í milli í kjaraviðræðum félagsins við Icelandair.

„Við höfum ekki fundað með fulltrúum Icelandair síðan fyrir helgi. Fundi sem var boðaður á fimmtudaginn kemur var flýtt um tvo daga en svo var því breytt. Það verður því enginn fundur fyrr en á fimmtudag. Staðan milli viðsemjenda er því óbreytt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert