Fólk var búið að bíða eftir þessu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég skal alveg viðurkenna að ég átti ekki von á að þetta færi svona hratt af stað,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um vefinn „Leiðréttingin“, en um 20.000 Íslendingar, í 76 löndum, sendu inn umsókn fyrsta sólarhringinn.

Aðgerðirnar ná til um 70.000 heimila, en hámarksfjárhæð á hvert heimili er 4 milljónir króna. Umsóknarfrestur er til 1. september og mun heildarumfang aðgerðanna ekki liggja fyrir fyrr en að umsóknarferlinu loknu.

Miðað er við að heildarkostnaður við aðgerðina verði 80 milljarðar króna á fjórum árum, en framlag úr ríkissjóði til þess er háð samþykki Alþingis ár hvert. Á þessu ári verður allt að 20 milljörðum kr varið í aðgerðina, samkvæmt fjárlögum.

Aldrei ætlað að ná til allra

Sigmundur Davíð segir að þótt fjöldi umsagna fyrsta sólarhringinn komi honum á óvart séu viðbrögðin til marks um að aðgerðirnar séu tímabærar. „Það sýnir auðvitað að þetta er eitthvað sem fólk er búið að vera að bíða eftir. Það er uppsafnaður þrýstingur að þetta verði og þeim mun ánægjulegra að þetta skuli núna vera orðið að veruleika.“

Aðspurður segir hann létti að málið hafi verið klárað. „Það fyllir mann krafti að takast á við næstu verkefni. Nú erum við að ráðast í heildarendurskipulagningu húsnæðiskerfisins. Menn hafa nefnt að skuldaleiðréttingin taki ekki til allra, enda var það aldrei hugsunin.“

Breytingarnar sem nú verði ráðist í muni hinsvegar koma til móts við þá sem eftir sitja, leigjendur. „Þær munu styrkja stöðu leigjenda til muna, auka framboð á húsnæði og lækka leiguverð og jafnvel styrkja stöðu þeirra sem eru með búseturétt. Þannig að þessu er ekki lokið, það tekur bara við næsti áfangi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert