Íbúar miðborgarinnar geta látið sig hlakka til að baða sig loksins utandyra á sólardögum eins og þessum í framtíðinni, því deiliskipulag vegna byggingar útilaugar við Sundhöllina var samþykkt í borgarráði í dag athugasemdalaust.
Framkvæmdir ættu því að geta hafist næsta vetur, samkvæmt því sem Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn, segir áFacebook-síðu sinni.
Að sögn Dags er nú verið að teikna laugina, á grundvelli verðlaunatillögunnar, sem valin var í nóvember 2013. Í tillögunni er gert ráð fyrir 25 metra langri útisundlaug, nýjum pottum, vaðlaug fyrir börn, nýju eimbaði og annarri aðstöðu til alhliða heilsuræktar.
Gert er ráð fyrir að gömlu búningsklefarnir verði notaðir áfram, enda eru þeir friðaðir, en byggðir verða nýir búningsklefar kvenna og karlaklefinn stækkaður.
„[A]lla vega er gott að sólin er að æfa sig, því útilaugin og nýju pottarnir við Sundhöllina verða í góðu skjóli frá norðanstrengnum en böðuð í sól, þegar sólar nýtur, frá morgni til kvölds,“ segir Dagur.
Sjá einnig: Ný útilaug og pottar í miðborgina