Er líknardráp réttlætanlegt?

Líknardráp getur verið siðferðislega réttlætanlegt í sumum tilvikum að sögn …
Líknardráp getur verið siðferðislega réttlætanlegt í sumum tilvikum að sögn Salvarar Nordal. Ásdís Ásgeirsdóttir

Í tilvikum þar sem aðstæður sjúklinga eru sérlega slæmar og þjáningar þeirra óbærilegar getur verið að ekkert sé siðferðislega rangt við að aðstoða þá við að deyja, ef vilji þeirra stendur til þess og enginn annar hlýtur skaða af. Þetta segir Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. „Þó aðstæður kunni að vera þannig að maður geti réttlætt þennan valkost og skilji aðstæður einstaklingsins verður þó að hafa í huga að þetta er talsvert mikil ósk á hendur heilbrigðisstarfsfólks,“ segir hún og bætir við að hún sé eindregið þeirrar skoðunar að fara eigi mjög varlega í að heimila beint líknardráp og telur raunar mörg rök mæla gegn því.

Salvör hélt erindi um líknardráp í ljósi siðfræðinnar á málstofu um líknarmeðferð og líknardauða á Grand hótel í fyrradag.

Hún segir að gera þurfi greinarmun á beinu og óbeinu líknardrápi. Sjúklingar hafa rétt til þess að hafna lífsnauðsynlegri læknismeðferð og telst það óbeint líknardráp þegar sjúklingur gerir það og deyr í kjölfarið. Með beinu líknardrápi er hins vegar beinlínis stuðlað að dauða manneskjunnar.

Salvör segir skilin þar á milli vera misjafnlega skýr. „Það getur verið mikill munur á því fyrir fagfólk hvort það dragi sig í hlé og hætti meðferð eða hvort það veiti meðferð sem veldur dauða. Þó skilin geti verið óljós fyrir sjúklinga er þetta mjög skýr lína fyrir þann sem á að framkvæma líknardráp,“ segir hún.

Líknardráp heimilt á börnum

Holland var fyrsta ríki heims til að leyfa líknardráp en þar er það heimilt á börnum eldri en 12 ára með samþykki foreldra. Í Belgíu er líknardráp einnig heimilt, en án aldurstakamarka. Belgíska þingið samþykkti í febrúar síðastliðnum lög er heimila líknardráp án tillits til aldurs. Samkvæmt lögunum verður barnið að þjást af banvænum sjúkdómi og standa frammi fyrir óbærilegum líkamlegum þjáningum.

Aðspurð hvort réttlætanlegt geti verið að framkvæma líknardráp á ungum börnum segir Salvör það vera algjört skilyrði að þetta sé gert með fullum vilja einstaklingsins og að hann sé með fullu fær um að taka ákvörðunina. Hún segir sams konar álitaefni koma upp þegar ung börn velja að hafna lífsnauðsynlegri meðferð. „Langveik börn hafa gengið í gegnum mikið og þroskast, en menn velta þó fyrir sér hvort þau skilji í raun og veru hvað þau eru að biðja um, hvað felist í dauðanum og hversu endanlegur hann sé.“

11 ára vill ekki meðferð

Mál ellefu ára gamallar kanadískrar stúlku sem hefur beðið um að krabbameinsmeðferð sinni verði hætt hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum eftir að hún birti myndband á youtube þar sem hún lýsir ástæðum þess að vilja ekki meðferð. Stúlkan heitir Makayla Sault og er með hvítblæði og segir aukaverkanir geislameðferðar vera óbærilegar. Þegar myndbandið er tekið upp hefur hún ekki erið í geislameðferð í tvær vikur og segist líða mun betur.

Barnaverndaryfirvöldum hefur hins vegar verið gert viðvart um málið sem hefur vakið upp miklar umræður um það hvort aldur einstaklings skipti máli þegar kemur að ákvörðun um líf og dauða.

Aldraða getur skort hæfni

Salvör segir málið þó ekki einungis vera snúið þegar kemur að börnum og rétti þeirra til þess að óska eftir líknardauða heldur einnig í tilfelli aldraðra með heilabilun en þá skorti hæfni til þess að taka slíka ákvörðun þar sem einstaklingunrinn þurfi að hafa andlega getu til að átta sig á því um hvað ræðir.

Í þeim tilfellum hefur verið talað um svokallaða lífsskrá, sem mögulega væri ein leið til þess að gera fólki kleift að óska eftir líknardrápi ef slíkar aðstæður skapast. Hér á landi er hægt að fylla út eyðublað á vefsíðu Embættis landlæknis þar sem m.a. er hægt að koma á framfæri ósk um um að hafna læknismeðferð sem ekki hefur í för með sér von um lækningu. „Þetta er ein leið, en ekkert af þessu er þó einfalt í framkvæmd því jafnvel þó að þú hafir skrifað undir eitthvað fyrir mörgum árum síðan geta aðstæður breyst. Þú getur haldið að þú munir bregðast við áföllum með ákveðnum  hætti en þú veist það ekki fyrr en á reynir.“

Tengsl milli líknarmeðferðar og óskar um líknardráp

Bent hefur verið á að samband sé á milli gæða líknarmeðferðar og óskarinnar um það að deyja með beinu líknardrápi. „Rannsóknir hafa sýnt að ef fólk fær góða umönnun og er boðið góð líknarmeðferð eru minni líkur á því að það óski eftir að deyja fyrr en ella.“ Þá segir hún að kostnaður meðferðar geti einnig haft áhrif. „Fólki getur fundist sem það sé byrði á sínum nánustu. Ef meðferðin er mjög kostnaðarsöm getur það kallað fram vilja til þess að deyja.“

Enginn skyldugur til líknardráps

Salvör segir að samstaða þyrfti að vera um málið meðal heilbrigðisstarfsfólks. „Það er ekki hægt að leyfa þetta nema það sé samstarf í stéttinni og vilji meðal þeirra sem eiga að framkvæma þessa hluti. Það geta auðvitað komið upp vafaatriði og vandamál og þá ber fagfólkið ábyrgð. Það yrði því að vera alveg skýrt við hvaða aðstæður þetta væri heimilt.“

Samkvæmt siðareglum lækna er heimilt að hafna því að veita meðferð sem læknar geta ekki siðferðislega samþykkt og væru líknardráp heimiluð væri ekki hægt að skylda lækna til þess að taka þátt í því. „En þetta er ekki aðeins mál læknastéttarinnar heldur alls samfélagsins því það að heimila líknardráp innan heilbrigðisþjónustu getur haft veruleg áhrif á þjónustuna og það hvernig við lítum á þá sem eru að þjást af mjög alvarlegum sjúkdómum.“

Flest líknardráp eru framkvæmd í Hollandi og geta sjúklingar þegar þeir eru orðnir sjálfráða undirritað skjal varðandi ósk sína um líknardauða. Á síðasta ári voru líknardráp á fimmta þúsund talsins og um eitt af hverjum þrjátíu dauðsföllum. Í um 90% tilvika er um að ræða fólk sem þjáist af krabbameini. Framkvæmd líknardrápa getur verið tvenns konar samkvæmt hollenskum lögum. Annars vegar að læknir gefi sjúklingi lyf sem leiðir til andláts hans eða að sjúklingur taki lyfið sjálfur sem læknirinn ávísar.

Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar.
Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar. Árni Sæberg
Fólk getur fyllt út lífsskrá þar sem hægt er að …
Fólk getur fyllt út lífsskrá þar sem hægt er að koma á framfæri óskum um meðferð við lífslok. Ásdís Ásgeirsdóttir
Aldraða með heilabilun getur skort hæfni til þess að biðja …
Aldraða með heilabilun getur skort hæfni til þess að biðja um líknardauða. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka