Samningafundi í kjaradeilu flugmanna og Icelandair lauk nú fyrir stundu í húsakynnum ríkissáttasemjara. Boðað hefur verið til annars fundar á morgun, fimmtudag.
Samninganefndir Félags íslenskra atvinnuflugmanna og Icelandair settust að samningaborðinu klukkan 10:30 í morgun, en þegar frá var horfið í gærkvöldi hafði hægt þokast og enn langt í land. Tíu dagar eru nú til stefnu, því takist ekki að semja fyrir 1. júní verður skipaður gerðardómur sem hefur mánuð til að ákveða kaup og kjör flugmanna, eða til 1. júlí.
En jafnvel þótt kjaradeilan fari fyrir gerðardóm gætu flugmenn haldið áfram þeirri stefnu sinni að vinna ekki yfirvinnu og því gæti allt eins farið svo að flugáætlun verði áfram í uppnámi langt fram á sumar. Miðað við að 90 flugferðir féllu niður á tólf dögum gætu aflýstar ferðir Icelandair skipt hundruðum áður en yfir lýkur.