„Þetta er ekki bara fjárhagslegt tjón, heldur líka tilfinningalegt,“ segir Gunnar Ingi Hrafnsson, sem missti ömmu sína í byrjun maí. Útséð virðist um að faðir hans, sem er búsettur í New York, geti fylgt móður sinni til grafar því vegna ástandsins hjá Icelandair kemst hann ekki til Íslands tímanlega.
Þegar dánarfregnin barst föður hans bókaði hann strax flug heim frá New York, tveimur dögum fyrir jarðarförina svo hann hefði rúman tíma og næði líka kistulagningunni. Ekki fór þó betur en svo að flug til og frá New York voru felld niður í gær vegna manneklu í áhöfnum.
„Þetta er bara algjör hörmung fyrir okkur og hittir á versta tíma, fyrst verkfallið og svo allt þetta vesen með flugmenn að hringja sig inn veika. Öll fjölskyldan mín er búin að finna fyrir þessu, af því við erum víðsvegar um Evrópu og Bandaríkin að reyna að púsla okkur saman í jarðarför og kistulagningu. Þetta hefur skapað alls konar hausverk og leiðindi á sorgartímanum okkar og hefur komið okkur í þá stöðu að við getum ekki verið saman og syrgt saman,“ segir Gunnar Ingi.
Amma hans lést 10. maí og þá þegar fengu þau að kenna á afleiðingum kjaradeilunnar því föðurbróðir hans ætlaði að hraða sér heim frá Finnlandi vegna þessa. Daginn áður höfðu flugmenn Icelandair hinsvegar lagt niður störf í 12 tíma og næstu tvo daga á eftir var 21 flug fellt niður og talsverðar tafir urðu. „Hann var að reyna að drífa sig heim þegar hún dó en lenti í seinkun og komst ekki fyrr en mörgum klukkutímum seinna,“ segir Gunnar Ingi.
Jarðarförin verður á Akureyri á morgun en faðir Gunnars Inga er enn í Bandaríkjunum og virðist útséð um að hann nái heim. „Síðast þegar ég talaði við hann hafði honum verið boðið að fá flug til Boston og svo þaðan til Íslands á miðnætti. Ég ætlaði þá að bíða eftir honum og keyra norður í nótt. En svo var ekkert víst hvort Boston vélin myndi fara þannig að þetta er allt orðið mjög flókið fyrir hann“
Starfsfólk Icelandair stendur í ströngu við að greiða úr flækjunni sem ástandið skapar, eins og fram hefur komið. Gunnar Ingi segir að starfsfólkið segist harma stöðuna sem þau eru í, en geti lítið gert til að bæta upp fyrir það.
„Þetta er auðvitað bara eitthvað fólk sem vinnur á skrifstofunni. Ekki eru það topparnir sjálfir eða flugmennirnir sem fara í símann og segja fólki af hverju þeir vilja ekki fljúga með það heim. Þannig að það er ekki hægt að tala illa til skrifstofufólksins, þau lenda bara í þessu að vera rödd fyrirtækisins út á við en geta ekkert gert.“
Eins og gefur að skilja er fjölskyldan þó ekki sátt við að kjaradeila flugmanna og Icelandair hafi slík áhrif á þeirra persónulega líf og játar Gunnar Ingi því að þetta auki enn á sárindin sem eru fyrir vegna andláts ömmu hans.
„Við erum ekki par ánægð hvorki með framgang flugmanna né Icelandair. Ég vinn sjálfur hjá rútufyrirtæki við að keyra ferðamenn og áhrifin sem þetta hefur haft á fyrirtækið sem ég vinn hjá eru eitt, en þetta snýst ekki bara um ferðamennina og hótelin og rúturnar og allt það. Þetta er ekki bara fjárhagslegt tjón, heldur tilfinningalegt.“