Vaxandi órói og óvissan algjör

Hafi fólk haldið að röskun á flugáætlun Icelandair væri liðin hjá þegar stjórnvöld settu lög á verkfallið, þá var það misskilningur. Nú hafa alls um 90 ferðir verið felldar niður, auk alls flugs til Pétursborgar í júní. Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi segir vaxandi óróa meðal viðskiptavina.

Í dag hafa þrjár ferðir verið felldar niður, til og frá New York og frá Vancouver til Keflavíkur. Margir tjá óánægju sína gagnvart Icelandair á samfélagsmiðlunum Facebook og Twitter og má gera því skóna að orðspor flugfélagsins bíði verulegan hnekki vegna ástandsins.

Óskiljanlegt ástand í augum margra ferðamanna

Gríðarlegt álag er á starfsfólki Icelandair, að sögn Guðjóns Arngrímssonar upplýsingafulltrúa félagsins. Hefur það síst minnkað eftir að lög voru sett á verkfallið, enda er óvissan í raun meiri því verkfallsdagarnir lágu ljósir fyrirfram, en flugin sem nú falla niður, vegna þess flugmenn neita að vinna yfirvinnu, gera það oft með stuttum fyrirvara.

Á Facebook síðu Icelandair má sem dæmi sjá kanadíska konu, Ann Prins, spyrja með hversu miklum fyrirvara hún megi eiga von á tilkynningu, falli flugið hennar niður. Icelandair svarar að það sé mjög erfitt að segja, vegna þess að félagið glími nú við vöntun á flugmönnum sem komi oft í ljós á síðustu stundu. „Við reynum okkar besta til að láta vita eins snemma og hægt er.“

Af umræðum á samfélagsmiðlum að dæma þykir mörgum erlendum ferðamönnum, sem eru meirihluti viðskiptavina Icelandair, þetta ástand óskiljanlegt.

Hvert flug sem fellur niður hefur keðjuverkandi áhrif, því koma þarf farþegum í annað flug, og jafnvel tengiflug áfram og í einhverjum tilfellum hýsa þá og fæða á meðan greitt er úr málinu.

„Til að geta leyst úr svona vandamálum þarf töluverða þekkingu á bókunarkerfum og leiðum til að koma fólki í önnur flugfélög. Við höfum kallað til allt það fólk sem við höfum yfir að ráða, bæði erlendis frá og úr öðrum deildum fyrirtækisins,“ segir Guðjón.

Ófyrirséð hvenær óvissan endar

Lög á verkfallsaðgerðir flugmanna Icelandair tóku gildi þann 15. maí. Þau ná til vinnustöðvanna, verkbanna, verkfalla og annarra aðgerða sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lögin ákveða. Hinsvegar er ekki hægt að þvinga menn til að vinna yfirvinnu, og flugmenn Icelandair vísa í það.

Þá hefur mbl.is sagt frá því að Icelandair getur ekki brúað bilið með því að ráða erlendar áhafnir til að fylla í skarð íslenskra flugmanna sem neita að vinna, vegna þess að samkvæmt kjarasamningi eiga þeir forgang á alla vinnu hjá Icelandair Group.

Samninganefndir FÍA og Icelandair settust að samningaborðinu kl. 10:30 í morgun, en þegar frá var horfið í gærkvöldi hafði hægt þokast og enn langt í land. 10 dagar eru nú til stefnu, því takist ekki að semja fyrir 1. júní verður skipaður gerðardómur sem hefur mánuð til að ákveða kaup og kjör flugmanna, eða til 1. júlí.

En jafnvel þótt kjaradeilan fari fyrir gerðardóm gætu flugmenn haldið áfram þeirri stefnu sinni að vinna ekki yfirvinnu og því gæti allt eins farið svo að flugáætlun verði áfram í uppnámi langt fram á sumar. Miðað við að 90 flugferðir féllu niður á 12 dögum gætu aflýstar ferðir Icelandair skipt hundruðum áður en yfir lýkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert