Þáverandi stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna kallaði eftir því á ársfundum sjóðsins 2012 og 2013 að ríkissjóður myndi selja lífeyrissjóðum hlut í öflugum ríkisfyrirtækjum á borð við Landsvirkjun.
Fjármálaráðherra sagði á þriðjudag að það kæmi til greina að selja hlut í fyrirtækinu, svo sem til lífeyrissjóða. Helgi Magnússon, fyrrverandi stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna og nú varaformaður sjóðsins, segir í samtali við Morgunblaðið að þessi hugmynd ráðherra sé í anda þess sem lífeyrissjóðir hafi talað fyrir.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði á ársfundi Landsvirkjunar að hann vildi afnema ríkisábyrgð af skuldum fyrirtækisins og taldi hægt að hraða því með því að fá meðeigendur að Landsvirkjun, að því er fram kemur í fréttaskýringu um mál þetta í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.
Ásgeir Jónsson, hagfræðingur og lektor við Háskóla Íslands, telur að skráning Landsvirkjunar í Kauphöll sé heillavænlegt skref bæði frá hagsmunum þjóðarinnar og Landsvirkjunar.