Hraðbraut tekur til starfa á nýjan leik

Ólafur Haukur Johnson, skólastjóri Menntaskólans Hraðbrautar.
Ólafur Haukur Johnson, skólastjóri Menntaskólans Hraðbrautar. mbl.is/Eggert

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur veitt Menntaskólanum Hraðbraut skriflega viðurkenningu til kennslu til stúdentsprófs á náttúruvísindabraut og hugvísindabraut.

Nú er því ljóst að skólinn mun taka til starfa á nýjan leik í haust eftir tveggja ára hlé.

Ólafur Haukur Johnson, skólastjóri og eigandi Menntaskólans Hraðbrautar, segist finna fyrir miklum áhuga meðal nemenda, þrátt fyrir að skólinn hafi ekki auglýst sérstaklega eftir þeim. 

„Við höfum verið að fá þónokkrar umsóknir upp á síðkastið. Ég lét það koma fram á heimasíðunni okkar að það væri hægt að sækja um, en að við værum hins vegar ekki komnir með viðurkenninguna,“ segir Ólafur Haukur í samtali við mbl.is.

„En ég hef ekkert auglýst, nákvæmlega ekki neitt. Þetta spurðist bara út, en það verður öðruvísi nú þegar við förum að auglýsa. Það er sá tími sem er framundan hjá okkur,“ segir hann.

890 þúsund krónur í skólagjöld

Skólinn fær hins vegar ekki fjárstuðning frá ríkinu. Skólagjöldin verða því ein og sér að standa undir rekstri skólans. „Það er því miður staðan. Það þýðir auðvitað að við þurfum að rukka mjög há skólagjöld,“ segir Ólafur Haukur, en skólagjöldin verða 890 þúsund krón­ur fyr­ir hvert skóla­ár.

„En við teljum engu að síður að það borgi sig fyrir nemendur að koma í skólann. Fjár­hags­leg­ur ávinn­ing­ur nem­enda af því að ljúka há­skóla­námi fyrr en kost­ur er á í öðrum skól­um er til dæmis mik­ill, miklu mun meiri en sem nem­ur sjálfum skóla­gjöld­un­um,“ segir hann.

„En maður veit það líka að það eru örugglega fjölmargir, sér í lagi ungt fólk sem kemur beint úr grunnskóla, sem staldra við, horfa á þessi skólagjöld og setja þau fyrir sig.“

Fátt að vanbúnaði

Aftur á móti sé annar hópur, oft ungmenni á aldrinum 18 til 22 ára, sem hefur áhuga á því að hefja nám í skólanum. „Það eru eldri nemendur. Fólk sem hefur kannski verið að slugsa á framhaldsskólaárunum eða jafnvel alls ekkert verið í skóla. Síðan allt í einu áttar það sig á því að það hefur áhuga á því að fara í háskóla og mennta sig,“ segir hann og bætir við:

„Ég finn það alveg að þessi hópur er mjög tilbúinn að skoða skólann þó svo að skólagjöldin séu há.“

Áfram verður kennt í húsnæðinu í Faxafeni og segir Ólafur Haukur að fátt sé að vanbúnaði að kennsla geti hafist.

Hann segist reyndar eiga eftir að ráða kennara í einhver störf, en hann hefur þó verið í sambandi við nokkra. „Það er þannig að þegar maður byrjar á nýjan leik getur maður ekki boðið kennurum upp á fullt starf til að byrja með. Ekki á meðan fyrstu skrefin eru stigin,“ segir hann. Þannig hafi það einnig verið þegar Hraðbraut tók upphaflega til starfa árið 2003.

„Kennarar voru í hlutastarfi hjá okkur og svo eftir því sem það fjölgaði í skólanum, þá gat maður boðið þeim upp á fullt starf.“

Ráðherrann hlynntur skólanum

Hann segist eiga von á mikilli fjölgun nemenda, eða yfir 100%, strax á öðru ári. Annar árgangurinn sé yfirleitt stærri en sá fyrsti. „Þannig var þetta að minnsta kosti þegar við byrjuðum á sínum tíma,“ segir Ólafur Haukur.

Þrátt fyrir að ráðherra hafi hafnað því að gera þjónustusamning við skólann segir Ólafur Haukur að hann hafi ávallt verið jákvæður í garð framtaksins. „Þetta er að vísu búið að taka lengri tíma en ég hefði kosið, en ég held að það verði að segjast að ráðherra hefur verið hlynntur skólanum. Ég hef ekki orðið var við annað.“

Menntaskólinn Hraðbraut.
Menntaskólinn Hraðbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is/Jim Smart
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert