Enginn fótur er fyrir þeirri frétt alþjóðlegu fréttaveitunnar Bloomberg að það styttist í að íslensk stjórnvöld bjóði fulltrúum vogunarsjóða og annarra kröfuhafa föllnu bankanna til viðræðna um uppgjör þrotabúanna.
Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. „Þetta er einfaldlega rangt. Það er ekkert breytt hvað það varðar að stjórnvöld hafa enga beina aðkomu að þessu máli og hafa engin áform um að fara í viðræður við kröfuhafana, enda eru stjórnvöld ekki aðilar málsins. Hlutverk þeirra er aðeins að meta hvort sú lausn sem birtist sé viðunandi, þannig að hún réttlæti afnám fjármagnshafta.“
Umrædd frétt Bloomberg byggðist á tveimur ónafngreindum heimildarmönnum sem sagðir voru koma nærri undirbúningi að afnámi hafta.