Þingmaður og fyrrverandi ráðherra dómsmála segir ákvörðun Sigríðar J. Friðjónsdóttur, ríkissaksóknara, um að ákæra beri hjúkrunarfræðing á Landspítala vegna atviks á árinu 2012, þar sem maður lést, félagslegt og siðferðilegt glapræði. Með ákvörðun sinni breyti ríkissaksóknari íslenskum veruleika.
Eins og greint var frá á mbl.is hefur ríkissaksóknari gefið út ákæru á hendur Landspítalanum og starfsmanni á gjörgæsludeild hans. Forsvarsmenn spítalans sendu einnig í gær frá sér tilkynningu þar sem segir: „Þetta er í fyrsta sinn sem Landspítali og starfsmaður hans eru ákærð fyrir atvik af þessu tagi og stendur íslensk heilbrigðisþjónusta á krossgötum.“
Þá sendi Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga einnig frá sér tilkynningu vegna málsins. Í henni segir að vegna ákærunnar standi hjúkrunarfræðingar frammi fyrir nýjum veruleika sem muni hafa umtalsverð áhrif á störf þeirra til framtíðar.
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi innanríkisráðherra, tekur málið upp á vefsvæði sínu. Þar segir hann: „Eftir að þessi frétt birtist hafa komið viðbrögð frá félagasamtökum sem segja að starfsfólk standi frammi fyrir nýjum veruleika. Það er rétt. Ríkissaksóknari telur sig án efa vera að taka ákvörðun á grundvelli lagatúlkunar. Ég leyfi mér að fullyrða að sú túlkun er hættulega þröngsýn. Með ákvörðun sinni er ríkissaksóknari að breyta íslenskum veruleika. Ákvörðun embættisins er að mínu mati félagslegt og siðferðilegt glapræði.“
Ögmundur ritaði einnig grein í Morgunblaðið um sama mál. Hér má lesa greinina.