„Þegar þetta kemur allt saman þá verður Ísland komið í fremsta flokk meðal allra landa heims hvað varðar áherslu á vísindi, rannsóknir og nýsköpun. Þannig að við lítum svo á að þetta sé sögulegur áfangi hér í dag.“
Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag þar sem hann kynnti aðgerðaáætlun sem samþykkt var á fundi Vísinda- og tækniráðs sem ætlað er að styðja við og efla samkeppnishæfni atvinnulífsins og gagnsæja nýtingu opinbers fjár. Gerð slíkrar áætlunar er nýmæli. Þá verður auknu fjármagni varið til málaflokksins. Með forsætisráðherra á fundinum voru Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra og Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Stórauka á fjárveitingar til vísinda og nýsköpunar samkvæmt fréttatilkynningu þannig að árið 2016 nái þær 3,0% af vergri landsframleiðslu og verði sambærilegt því besta sem þekkist innan OECD. Aðgerðunum er ennfremur ætlað að laða fram aukna fjárfestingu fyrirtækja í vísindum og nýsköpun. Þannig felur áætlunin meðal annars í sér stóraukið framlag í samkeppnissjóði og ráðstafanir til að auðvelda atvinnulífinu að fjárfesta í rannsóknum og nýsköpun.
Einnig er stefnt að því að gera afrakstur fjárfestinga í þessum efnum betur ljósan með sérstöku upplýsingakerfi, efla nýliðun og gera gangverk opinbera kerfisins liprara og skilvirkara samkvæmt tilkynningunni. Ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti samþykkt að beita sér fyrir fjármögnun áætlunarinnar með fyrirvara um fjárlagaferlið og afgreiðslu Alþingis að því er fram kemur í tilkynningunni.
„Ætlunin er að auka opinbera fjárfestingu í samkeppnissjóðum um 2,8 milljarða, þ.e. um 800 m.kr. fjárlagaárið 2015 og um allt að tvo milljarða kr. fjárlagaárið 2016. Um leið er þess vænst að aðgerðin auki fjárfestingar fyrirtækja um 5 milljarða kr. Það verður gert með því að skapa fyrirtækjum slíkt umhverfi að þau sjái hag í að auka hlut sinn í rannsóknar- og nýsköpunarstarfi. Sérstaklega er hér horft til skatthvata,“ segir ennfremur í tilkynningunni.