Forsetinn með sjóflugvél á Húsavík

Flugmaður sjóflugvélarinnar var að æfa sig fyrir að fljúga forseta …
Flugmaður sjóflugvélarinnar var að æfa sig fyrir að fljúga forseta Íslands á Húsavík á morgun. Mynd/Gunnþór Sigurgeirsson

Sjóflugvél var lent í æfingarskyni í höfninni á Húsavík í dag en á morgun verður Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, um borð í vélinni. Arngrímur Jóhannsson, flugmaður og stofnandi Atlanta flugfélagsins, flaug vélinni og sagðist hafa verið að skipuleggja flugið og lendingu vélarinnar.

Arngrímur og Ólafur Ragnar munu klukkan ellefu á morgun fljúga með málverk af landnámsmanninum Náttfara til Húsavíkur þar sem forsetinn mun formlega opna Könnunarsafn Íslands. Á safninu verður fjallað um allt sem tengist könnun heimsins og geimsins, þ.á.m. æfingar bandarísku tunglfaranna á Íslandi, kapphlaupið á pólana og landkönnun víkinga.

Listmálarinn Kristinn G. Jóhannsson, bróðir Arngríms, málaði verkið af Náttfara og afhendir safninu það ásamt Ólafi Ragnari. „Þar sem ég átti þessa sjóflugvél fannst okkur henta best að ég myndi bara fljúga hingað með málverkið,“ sagði Arngrímur þegar hann var nýlentur á Húsavík og mbl náði af honum tali.

Örlyg­ur Hnef­ill Örlygs­son, er stofn­andi og safn­stjóri Könnunarsafnsins eða The Explorati­on Muse­um sem verður opnað á Húsa­vík á morgun. Hann segir Ólaf Ragnar vera sérlegan áhugamann um allt sem tengist könnun heimsins og því hafi hann tekið vel í beiðnina um að opna safnið. „Ólafur er duglegur við að halda á lofti sögunni af Guðríði Þorbjarnadóttur en meðal muna er málverk af henni,“ segir Örlygur. „Nú þarf ég bara að ná hálfum bænum niður á höfn á morgun til þess að taka á móti flugvélinni, málverkinu og forsetanum,“ sagði hann.

Könnunarsafnið vakti athygli á dögunum þegar Örlygur auglýsti eftir geimfara til þess að kynna safnið fyrir gestum bæjarins í sumar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert