Samband íslenskra sveitarfélaga vísaði í dag kjaradeilu sinni við Félag leikskólakennara til ríkissáttasemjara. Boðað verður til fyrsta fundar í deilunni innan tíðar, að því er segir í frétt á vef ríkissáttasemjara.
Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, hefur sagt að leikskólakennarar sætti sig ekki við neitt annað en sömu hækkanir og grunnskólakennarar fengu.
„Þið vitið líka að engin rök eru fyrir því að leik- og grunnskólakennarar eigi ekki að vera á sömu launum. Vandinn er alvarlegur þar sem nú vantar um 1300 leikskólakennara til að uppfylla lög nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda. Ég þarf hins vegar ekkert að minna ykkur á það því þetta kunnið þið alveg upp á tíu,“ sagði Haraldur Freyr í opnu bréfi til Ingu Rúnar Ólafsdóttur, formanns samninganefndar sveitarfélaga, og Atla Atlasonar, fulltrúa Reykjavíkurborgar í samninganefnd sveitarfélaga.