Verkferlar á gjörgæsludeild Landspítalans hafa verið endurskoðaðir í kjölfar mistaka hjúkrunarfræðings sem leiddu til andláts sjúklings, að sögn framkvæmdastjóra hjúkrunar á spítalanum.
Eins og fram hefur komið hefur ríkissaksóknari gefið út ákæru á hendur Landspítalanum og hjúkrunarfræðingi á gjörgæsludeild spítalans vegna atviks á árinu 2012 sem leiddi til þess að sjúklingur lést.
Fram kemur í ákærunni að hjúkrunarfræðingnum sem hefur verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi hafi láðst að tæma loft úr kraga barkaraufarrennu þegar hann tók karlmann úr öndunarvél og setti talventil á rennuna. Afleiðingarnar urðu þær að maðurinn gat einungis andað að sér lofti en ekki frá sér, fall varð á súrefnismettun og blóðþrýstingi og hann lést skömmu síðar.
Sigríður Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, segir málið litið mjög alvarlegum augum. „Þegar svona alvarleg atvik verða hjá okkur skoðum við þau. Markmið okkar er að átta okkur á því hvað hefur gerst og hvað megi betur fara. Lokamarkmið er alltaf að reyna að fyrirbyggja að sambærileg atvik geti gerst aftur.
Þannig að í kjölfar þessa atviks, eins og annarra svona atvika, fórum við yfir okkar vinnu og skoðuðum verkferla. Það hafa verið settar fram tillögur að úrbótum.
Oft snýst þetta um að skerpa á ákveðnum hlutum og svo framvegis. Það hefur verið gert í þessu tilfelli. Þannig að það hafa verið teknar upp nýjungar í starfseminni til þess að auka enn frekar á árvekni og öryggi. Eitt besta dæmið er svokallað stöðumat, eða öryggismat, sem er framkvæmt í upphafi vaktar til þess að flagga því sérstaklega ef einhverjir sjúklingar eru mjög veikir fyrir, eða eitthvað mjög áhættusamt við þá sem kallar á sérstaka athygli.“
Hún kveðst aðspurð ekki hafa upplýsingar um hvort breytingar hafi verið gerðar á því hversu marga sjúklinga hver hjúkrunarfræðingur mun framvegis annast á gjörgæsludeild.
Frétt mbl.is: Láðist að tæma loft úr krafa