Pawel fær frelsisverðlaun Kjartans

mbl.is/Hjörtur

Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur ákveðið að veita Pawel Bartoszek og Rannsóknarsetri um Nýsköpun og Hagvöxt, RNH, Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar 2014. SUS hefur afhent verðlaunin á hverju ári frá árinu 2007. Þau hljóta einn einstaklingur og einn lögaðili, sem að mati stjórnar SUS hafa aukið veg frelsishugsjónarinnar á Íslandi.

Í rökstuðningi segir að Pawel Bartoszek séu veitt verðlaunin fyrir áralanga frelsisbaráttu sína. „Pistlaskrif Pawels hafa vakið verðskuldaða athygli og honum tekist að hafa mikil og góð áhrif á opinbera umræðu. Óhætt er að segja að frelsisunnendur eigi fáa eins góða málsvara og Pawel. Hann hefur verið óhræddur við að taka slaginn á opinberum vettvangi, sama hvort málstaðurinn teljist vera vinsæll eða óvinsæll, og er traustur málsvari einstaklingsfrelsisins.

Pawel, sem er Íslendingur af pólskum uppruna, á einnig þakkir skildar fyrir skrif sín um æskuárin sín í Póllandi. Þar varpar hann á skemmtilegan hátt ljósi á kommúnistastjórn Wojceicj Jaruzelski, síðasta leiðtoga Alþýðuveldisins Póllands.“

Þá er Rannsóknarsetri um nýsköpun og hagvöxt veitt Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar fyrir hið öfluga starf sem rannsóknarsetrið hefur unnið í þágu frelsisins undanfarin ár. Í rökstuðningi segir að tilgangur RNH sé að rannsaka hvað örvi og hindri nýsköpun og hagvöxt. Í rannsóknum stofnunarinnar sé sérstaklega beint sjónum að því, hvernig menn geti með sjálfsprottinni samvinnu, viðskiptum í stað valdboðs, fullnægt þörfum sínum og bætt kjörin.

„RNH hefur staðið fyrir fjölmörgum ráðstefnum og erindum, og fengið til landsins marga erlenda fræðimenn og áhugamenn um frelsi til þess að flytja erindi fyrir Íslendinga um gildi frelsisins. Þá sinnir RNH einnig rannsóknastarfi á sviðum sem tengjast sköttum og tekjudreifingu, auðlindanýtingu og umhverfisvernd og nýsköpun og framkvæmdamenn. Auk þess hefur RNH fjallað á öflugan hátt um minningu fórnarlambanna, þeirra sem létust vegna alræðisstefna 20. aldar.“

Fyrri verðlaunahafar:

2007: Andri Snær Magnason og Andríki

2008: Margrét Pála Ólafsdóttir og Viðskiptaráð Íslands

2009: Davíð Scheving Thorsteinsson og Hugmyndaráðuneytið

2010: Brynjar Nielsson og InDefence

2011: Ragnar Árnason og Advice

2012: Hannes Hólmsteinn Gissurarson og AMX

2013: Gunnlaugur Jónsson og Samtökin '78

Pawel Bartoszek
Pawel Bartoszek
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka