Fögnuðu nýjum húsakynnum

Boðið var upp á grillaðar pylsur.
Boðið var upp á grillaðar pylsur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Borgarráð Reykjavíkur hefur samþykkt að gera leigusamning við Íslenska ættleiðingu á húseigninni Bjarkarhlíð við Bústaðaveg, en í tilefni af því bauð félagið félagsmönnum og velunnurum til grillveislu í skógarlundinum við húsið í dag.

Bjarkarhlíð stendur í fallegum skógarlundi austan undir Bústaðakirkju við Bústaðaveg. Þar mun framtíðaraðstaða félagsins verða, skrifstofa, fræðslustarf og þjónusta við börn og fjölskyldur þeirra eftir ættleiðingu.

Viðræður um samvinnu við Reykjavíkurborg hafa staðið í rúm tvö ár og segir félagið það því meira mikið fagnaðarefni að þessum áfanga sé náð.

Íslensk ættleiðing er eina ættleiðingarfélagið á Íslandi og hefur löggildingu frá Innanríkisráðuneytinu til að annast milligögu um ættleiðingar erlendis frá. Félagið er í grunninn frjáls félagasamtök þar sem hver félagsmaður hefur atkvæðisrétt á aðalfundi félagsins sem haldinn er í mars ár hvert. 

Meginmarkmið félagsins er að aðstoða þá sem vilja ættleiða börn af erlendum uppruna og ávallt þannig að hagsmunir barnsins sitji í fyrirrúmi, að stuðla að velferð kjörfjölskyldna og loks að vinna að velferðarmálum barna erlendis.

Íslensk ættleiðing var fyrsta félag kjörforeldra og var stofnað í Reykjavík í janúar árið 1978. Í fyrstu kallaðist það Ísland-Kórea. Árið 1981 var nafni þess breytt í Íslensk ættleiðing. Fljótlega var annað félag stofnað á Akureyri, Ísland-Guatemala, sem einnig vann að ættleiðingum. Árið 1983 sameinuðust félögin svo undir nafninu Íslensk ættleiðing og búa félagsmenn um allt land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka