Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Arngrímur Jóhannsson, flugstjóri og stofnandi Atlanta flugfélagsins, flugu saman í sjóflugvél Arngríms með málverk af landsnámsmanninum Náttfara frá Akureyri til Húsavíkur í dag. Þar opnaði forsetinn formlega Könnunarsafn Íslands.
Á safninu verður fjallað um allt það sem tengist könnun heimsins og geimsins. Þar verður meðal annars að finna muni og minjar um þjálfun geimfara í Þingeyjarsýslum, leiðangra norrænna víkinga fyrir þúsund árum, kapphlaupið á pólana og margt annað sem tengist ferðum manna á ókunnar slóðir.
Listmálarinn Kristinn G. Jóhannsson, bróðir Arngríms, málaði verkið af Náttfara og afhenti safninu það ásamt Ólafi Ragnari. „Þar sem ég átti þessa sjóflugvél fannst okkur henta best að ég myndi bara fljúga hingað með málverkið,“ sagði Arngrímur við mbl.is í gær.
Örlygur Hnefill Örlygsson, stofnandi og safnstjóri Könnunarsafnsins eða The Exploration Museum, sagði að Ólafur Ragnar væri sérlegur áhugamaður um allt sem tengdist könnun heimsins og því hefði hann tekið vel í beiðnina um að opna safnið.
Frétt mbl.is: Forsetinn með sjóflugvél á Húsavík
Frétt mbl.is: Kanna nýjar lendur veraldarinnar í safninu á Húsavík