60 ár liðin frá fyrstu plötu Ragga Bjarna

Ragnar Bjarnason heldur á fyrstu plötunni sem hann söng inn …
Ragnar Bjarnason heldur á fyrstu plötunni sem hann söng inn á, fyrir 60 árum, en hann verður 80 ára í haust. mbl.is/Árni Sæberg

„Er ég á báðum hliðum? Ég vissi það ekki,“ sagði Ragnar Bjarnason, tónlistarmaður með meiru, glaðlega þegar hann handlék fyrstu plötuna sem var gefin út með honum fyrir 60 árum, nánar tiltekið 26. maí árið 1954. Platan er varðveitt á Þjóðarbókhlöðunni en Ragnar á sjálfur ekki eintak af plötunni. „Þetta voru mjög brothættar plötur. Mínar hafa eflaust eitthvað týnst í flutningunum.“

Á plötunni syngur Ragnar Bjarnason með KK-sextettinum tvö lög, Í faðmi dalsins eftir Bjarna Gíslason og Í draumi með þér (I'm walking behind you) eftir Billy Red. Platan er 78 snúninga, 25 sentímetrar í þvermál og kom út hjá hljómplötuútgáfu sem nefndist Tónika. Þá var Ragnar tæplega tvítugur að aldri en hann verður 80 ára 22. september næstkomandi. Í auglýsingu plötunnar er Ragnar kynntur sem hinn „nýi dægurlagasöngvari.“ Það eru orð að sönnu en hann átti síðar meir eftir að verða einn ástsælasti söngvari landsins.

Einstakt að spila með KK-sextett

„Lagið eftir Bjarna er mjög gott. Hann var alltaf að gauka einhverjum lögum að okkur þegar við spiluðum uppi á velli,“ rifjaði Ragnar upp um leið og hann tók við kaffibollanum og bætti duglega nokkrum sykurmolum útí. „Maður ætti að vera orðinn löngu dauður miðað við allt sykurátið í gegnum tíðna og fréttirnar í dag.“ Ragnar er eldhress og lætur vel af sér.

„Það var æðislegt að spila með KK-sextett. KK var alveg einstakur maður, hann var svo ljúfur og góð manneskja. Strákarnir í bandinu gerðu allt fyrir hann.“ Á þessum tíma þegar platan var tekin upp var Ragnar ekki kominn í bandið. Nokkru síðar varð hann söngvari KK-sextetts og var í fjölda ára. „Það má segja að ég hafi laumað mér inn í bandið bakdyramegin,“ segir Ragnar og hlær. Platan var tekin upp í Ríkisútvarpinu sem var þá við Austurvöll. „Allt var tekið upp eftir að dagskrá lauk upp úr ellefu á kvöldin.“

Ragnar segist alltaf hafa verið staðráðinn í að vera tónlistarmaður. Hann spilaði á trommur og fór ekki að syngja fyrr en um 15 ára aldurinn. „Þá fór pabbi að láta mig syngja eitthvað með körlunum. Hann vissi alltaf að það byggi eitthvað í mér.“

Ragnar heldur veglega upp á árin 80 á þessu ári. Í haust verða haldnir tónleikar í Hörpu og þar stígur á svið með honum helsta tónlistarfólk landsins og karlakórar eins og Karlakór Reykjavíkur og Álftagerðisbræður. Þá munu einnig Jón Jónsson og Lay Low syngja með honum. „Unga fólkið verður líka, það er nauðsynlegt að hafa það með.“ Uppselt er á fyrstu tónleikana og nokkrir aðrir komnir í sölu. „Ég ætla að sprella og hafa gaman að þessu. Þetta má ekki verða of síft. Ég hef líka verið spurður að því hvort þetta verði ekki örugglega eftir mínu höfði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert