Auður á leið heim til Íslands

Úthafsróðrabáturinn Auður.
Úthafsróðrabáturinn Auður.

Í morgun ýttu róðrarkapparnir á úthafsróðrarbátnum Auði úr vör frá Eiði í Færeyjum. Að sögn Svans Wilcox var stillt og gott í sjóinn í morgun þegar félagarnir lögðu í hann og útlit fyrir þokkalegt veður til róðrar næstu daga. Áætlað er að lokaspretturinn heim til Íslands taki um viku ef allt gengur upp.  

Þann 17. maí í fyrra reri áhöfnin á Auði af stað frá Kristianssand í Noregi til Orkneyja og Færeyja en vegna mjög óhagstæðra veðurskilyrða síðasta sumar þurfti að hafa vetursetu í Færeyjum.

Sjóleiðin milli Færeyja og Íslands er ríflega 240 sjómílur. Áætlaður lendingarstaður gæti breyst eftir straumum og vindum, en stefnan er að koma til hafnar á Höfn í Hornafirði eða Djúpavogi, að því er segir í fréttatilkynningu.

Róið er milli landa samkvæmt reglum Ocean Rowing Society og Guinness World Records. Róðurinn er óstuddur og án fylgdarbáta. Sögulegum heimildum ber saman um að þetta er í fyrsta skipti í Íslandssögunni sem báti er róið alla leiðina frá meginlandi Evrópu til Íslands án þess að notast við segl eða mótor. Í fyrra setti áhöfnin á Auði tvö úthafsróðramet þegar hún varð fyrst til að róa frá Noregi til Orkneyja og frá Orkneyjum til Færeyja.   

Hér er hægt að fylgjast með framvindu bátsins í rauntíma.

Auður verður mögulega ekki eini litli báturinn á sjóleiðinni milli Færeyja og Íslands en bandaríski ævintýramaðurinn Chris Duff hyggst einnig halda leiðangri sínum frá Færeyjum áfram nú um helgina. Chris hóf leiðangur sinn í Skotlandi árið 2011. Hann er einn á ferð á ferð og notast við árar, en auk þess segl og flugdreka og er því ekki í keppni við áhöfnina á Auði um að verða fyrstur til að róa til Íslands.

Áhöfnina síðasta legginn til Íslands skipa Kjartan Jakob Hauksson skipstjóri, Svanur Wilcox, Hálfdán Freyr Örnólfsson og Ingvar Ágúst Þórisson.

Fésbókar-síða leiðangursins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert