Lít á mig sem heppinn mann

Halldór Einarsson, eigandi Henson.
Halldór Einarsson, eigandi Henson. mbl.is/Árni Sæberg

Eurovison hefur á sér margar hliðar og fyrirtækið Henson kom við sögu í framlagi Íslendinga þetta árið en litríkur fatnaður Pollapönkara í Eurovision kom frá fyrirtækinu og vakti mikla athygli. „Samstarf Henson og Pollapönkara er ekki alveg nýtt af nálinni,“ segir Halldór Einarsson, eigandi Henson, en hann hefur í 45 ár framleitt íþróttafatnað. „Þegar Pollapönkarar komu fyrst fram opinberlega völdu þeir að koma fram í fatnaði frá Henson. Það var litagleðin sem vakti áhuga þeirra og eins það að þessi fatnaður er mjög gjarnan notaður í leikskólum. Börnunum líður vel í þessum fatnaði og efnin eru sterk og endingargóð. Ég hugsa að Pollapönkarar hafi líka gert sér grein fyrir því að áheyrendur í Eurovision muna betur eftir keppendum sem eru í frábrugðnum fatnaði. Ég held að það hafi bara hjálpað þeim ef eitthvað er.“

Áberandi forsjárhyggja

Þú hefur rekið Henson í áratugi. Hvernig er fyrirtækjaumhverfið á Íslandi í dag?

„Það er að mörgu leyti mjög gott að reka fyrirtæki á Íslandi í dag því hlutir eins og bankaþjónusta og flutningsþjónusta eru til fyrirmyndar og nálægðin við alla helstu þjónustu. Ég persónulega vildi samt búa við meiri stöðugleika. Það hefði örugglega mikil og jákvæð áhrif ef við Íslendingar værum að nota sterkan gjaldmiðil til dæmis evru. Upptaka sterks gjaldmiðils myndi væntanlega einnig stuðla að því að fleiri erlend fyrirtæki fengju áhuga á að reka starfsemi hér. Það er ljóst að hér er gengið mjög vasklega fram í því að verja ákveðna hagsmuni en ég held að ég fari ekki dýpra í það að sinni.

Þetta fyrirtæki hefur enga tollvernd gagnvart Evrópu og gagnvart Kína fellur tollverndin væntanlega út fljótlega. Fatnaður sem kemur frá til dæmis Bangladess, Filippseyjum og Indlandi ber 15 prósenta toll og það er sú vernd sem þetta fyrirtæki hefur. Ég hef alltaf verið andstæðingur tollamúra og vendarveggja fyrir ákveðna einstaklinga. Ég man eftir umræðum í gamla daga í Félagi íslenskra iðnrekenda þar sem margir sáu fyrir sér að íslenskur iðnaður legðist í rúst ef við gerðumst meðlimir í EFTA og voru sannfærðir um að til dæmis íslenskur sælgætisiðnaður færi fjandans til ef mackintosh-dollur fengjust hér í búðum. Þær voru smyglgóss á þessum tíma og fólk var að pukrast með þær í handfarangri. Umræðan um bjórinn var á sömu nótum, og fullyrt var af mörgum að ef sala yrði leyfð á honum myndi fólk detta í það í hádeginu og ekki mæta meira í vinnu þann daginn. Forsjárhyggjan er mjög áberandi í íslensku þjóðfélagi og að mínu mati er hún ekki góð.“

Boðið að láta mann hverfa

Fyrirtæki þitt er nú í blóma en það var ekki alltaf þannig.

„Fyrirtækið er 45 ára, stofnað 1969, og ferillinn hefur verið kaflaskiptur. Það blundaði í mér sá draumur strax sem strákur að fara út í einhvers konar framleiðslu. Ég hef teiknað mikið í gegnum tíðina og ég sé hlutina fyrir mér í formi og útliti. Ég lék lengi knattspyrnu með Val og íþróttaáhuginn varð til þess að ég fékk hugmynd um að stofna fyrirtæki sem sæi um framleiðslu á íþróttafatnaði. Uppgangurinn var mikill á sínum tíma og við framleiddum meðal annars búninga fyrir Aston Villa og mörg ensk knattspyrnulið. Á sínum tíma fékk ég afar freistandi tilboð um stofnun verksmiðju í Cumbernauld í Skotlandi þar sem mikil fríðindi voru í boði meðal annars myndarlegt peningaframlag. Ég ákvað aftur á móti að reisa fyrst þriðju verksmiðjuna hér heima og síðan kæmi sú skoska. Það urðu dýr mistök og í kjölfarið fylgdu nokkur erfið ár en þá stóð fjölskyldan þétt saman.

Ég bjó að mikilli reynslu og eftir þessa brotlendingu fékk ég alls kyns tilboð um að fara í svipaða framleiðslu í öðrum löndum. Ég vildi hafa sem mest svigrúm en í því felst að vera samkeppnisfær og vera með eins lágan tilkostnað og hægt er og geta þess vegna staðið sig vel á mörkuðum. Ég valdi að fara til Úkraínu og stofnaði þar fataverksmiðju sem ég veit ekki betur en að sé fyrsta íslenska fyrirtækið sem stofnað var í þáverandi Sovétríkjunum. Ég setti upp þessa verksmiðju í Yuzhny rétt norðan við Odessa í félagi við mjög stóra áburðarverksmiðju sem var sterkasta fyrirtæki í þessum landshluta. Höfuðvandinn í rekstrinum var að í stað þess að halda rúblunni tóku Úkraínumenn upp eigin gjaldmiðil og verðbólgan í landinu varð á skömmum tíma 1.000 prósent. Ég hafði reynslu af 120 prósenta verðbólgu á Íslandi en þarna var ástandið óviðráðanlegt. Menn voru á götuhornum, gjarnan vopnaðir, að eiga viðskipti í dollurum. Þetta er 45 milljóna manna þjóðfélag og ástandið var stjórnlítið. Framleiðsla í landinu var mjög fábreytt og ófullkomin og nánast ekkert hægt að kaupa innanlands til okkar verksmiðju. Það var ekki einu sinni hægt að kaupa nothæfan tvinna og ég varð að múta manni til að geta keypt svamp sem við notuðum í púða fyrir markmannsbúninga.

Um leið og ég var mættur á svæðið var mér boðin byssa en ég hafði ekki áhuga á að ganga um vopnaður. Sjálfum fannst mér ég aldrei vera í hættu en menn sem ég átti samskipti við hurfu nokkrir. Einu sinni var mér boðið að láta mann hverfa. Ég var að koma af fótboltaleik og þá kom til mín Georgíumaður sem hafði það áberandi einkenni að í honum var engin hvít tönn, bara gulltennur. Hann spurði mig hvort einhver væri að valda mér það miklum óþægindum að rétt væri að láta viðkomandi hverfa og tiltók sérstaklega ákveðinn mann, Libman, sem nú býr í Ísrael. Þessi Georgíumaður sagðist vera tilbúinn að sjá til þess að hann myndi hverfa og sagði: I do it free because you are my friend. Ég hafnaði boðinu, hefði ég sagt já hefði Libman horfið því þannig var þessi heimur. Þetta var á laugardegi og á mánudegi hitti ég Libman og ég hlýt að hafa horft á hann með einkennilegu augnaráði.“

Hnignun manneskjunnar

Hvernig var líf fólks í Úkraínu á þessum tíma?

„Fólk bjó þröngt en samkvæmt sovéska skipulaginu hafði hver manneskja sjö fermetra fyrir sig prívat og persónulega. Þarna komst fólkið af með því að vera með kálgarða og rækta grænmeti og ávexti. Þegar fólk tók uppskeruna inn á haustin þá sauð það og súrsaði og geymdi síðan í endalausum krukkum sem síðan var raðað upp um alla veggi í litlu íbúðunum. Verslanir voru nokkurn veginn tómar, en þó var selt brauð og heima átti fólk sína súrsuðu tómata. Aðalfæðan var kartöflur og tómatar því kjöt var takmarkað og afar dýrt. Þannig lifði fólkið.

Það er engin furða að Gorbasjov hafi gefist upp á að verja þessa stefnu enda drepur hún allt. Rétt eins og er að gerast í Norður-Kóreu núna. Ef einkaframtakið og viljinn til að skapa fá ekki að njóta sín þá koðnar manneskjan niður. Það var ótrúlega sorglegt að verða vitni að þessari hnignun manneskjunnar. Í Úkraínu var mögulegt að sjá hvað hafði verið gert fyrir byltingu því í listasafninu voru stórkostleg listaverk frá þeim tíma og í miðbæ Odessa niður við höfn eru margar fallegar byggingar þar sem handverk og sköpun nutu sín en undir kommúnismanum var allt óvandað og hörmulegt.

Ég hélt þetta út í tvö og hálft ár í von um að hlutirnir myndi breytast og ástandið skána. Svo varð þetta að taka enda. Menn sögðu að ég hefði sýnt þrautseigju með því að vera þarna svona lengi.

Henson hélt sínu striki allan tímann vegna mikils dugnaðar konu minnar, Estherar Magnúsdóttur, og börnin Begga og Einar Bjarni hafa lagt fyrirtækinu til gífurlega vinnu og alúð. Hjá Henson er flest laust við að vera staðlað og við fáum endalausar sérpantanir af öllu mögulegu tagi. Tæknilega er fyrirtækið mjög svo fullkomið og við framleiðum föt af öllu tagi. Við framleiðum búninga nánast allra körfuboltaliða á Íslandi og fjölbreytnin er gríðarleg. Fatnaður fyrir fimleika, frjálsar íþróttir, blak, handbolta, motorcross, hjólreiðar, glímu, sund – þó ekki það sem fer ofan í laugina – strokka, hárbönd, veifur, bara nefndu það og nú síðast skíðafatnaður sem meðal annars var notaður á Ólympíuleiknum í Sotchi. Auðvitað framleiðum við knattspyrnubúninga fyrir fjölmörg lið en þó ekkert af þeim sem leika í efstu deild og nú er stefnt að því að breyta því. Henson á sannarlega brýnt erindi til þess að brjóta upp einsleitt útlit margra knattspyrnu- og handboltafélaga, ekki sízt þar sem við bjóðum mun meiri gæði í keppnispeysum, stór yfirlýsing en sönn.“

Talandi um knattspyrnu, þú varst mikill íþróttamaður.

„Já, ég lék knattspyrnu með Val og við urðum Íslands- og bikarmeistarar á því tímabili. Þótt ekkert væri sjónvarpið var enski boltinn mjög vinsæll á þessum tíma en flest var miðað við Puskas sem var Ungverji, feikilega flinkur leikmaður og mjög dáður. Seinna varð Pelé aðalátrúnaðargoðið og það hefur gefið mér mikið að hafa í tímans rás hitt þessa tvo snillinga, Maradona, Beckham og einnig fjöldann allan af hetjum knattspyrnunnar og fengið tækifæri til þess að kynnast því hvernig hlutirnir virka í heimi knattspyrnunnar.“

Ekki óvænt símtal

Ég veit að þú varst vinur Hermanns Gunnarssonar, var þér brugðið þegar hann lést óvænt?

„Óvænt er ekki orðið sem ég myndi nota. Það fyrsta sem ég sagði þegar sameiginlegur vinur okkar Hemma hringdi í mig frá Taílandi til að segja mér að hann væri dáinn var: Þetta símtal er ég búinn að óttast lengi. Það var bara þannig að þegar Hermann fór í Dýrafjörðinn að dvelja hjá fóstru sinni henni Unni gladdist ég en þegar hann fór til útlanda varð ég sorgmæddur. Hann losnaði aldrei við alkóhólismann en átti sína kafla þar sem hann spjaraði sig ágætlega og gat þá verið edrú erlendis en oftast var það þó ekki. Hemmi var tvískiptur maður en hjartahlýjan var geislandi. Umfram allt var hann bráðskemmtilegur.“

Hvaða áhugamál áttu utan vinnunnar?

„Ég hef ákaflega gaman af söng og myndlist. Ég æfi með Valskórnum á mánudögum, en sá kór er orðinn ansi góður ekki síst vegna frábærs starfs Báru Grímsdóttur kórstjóra sem einnig er frábært tónskáld, og á þriðjudögum er ég í myndlistarhópi sem hittist í góðri aðstöðu í Hafnarfjarðarhrauni og málar. Þannig að ég nýti tímann utan vinnu fyrir þessi tómstundaáhugamál mín. En ég hef ákaflega gaman af að vinna í Henson og vinn langan vinnudag. Ég er kominn mjög snemma í vinnu og er eins lengi og þarf. Þetta er vinna sem þarf að sinna vel. Ég missi aldrei áhugann á því sem ég er að gera.

Ég lít á mig sem mjög heppinn mann og ég á frábæra fjölskyldu sem er mjög samhent. Svo er bara spurning um það hversu lengi maður heldur heilsunni, en meðan hún er í góðu lagi þá kemst ég yfir að gera ansi margt.“

Sunnudagsblað Morgunblaðsins kom út um helgina.
Sunnudagsblað Morgunblaðsins kom út um helgina.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert