Lóð í miðborginni boðin til sölu

Hér má sjá Tryggvagötu 13.
Hér má sjá Tryggvagötu 13. mbl.is

Reykjavíkurborg leitar eftir kauptilboðum í byggingarrétt fyrir atvinnuhúsnæði og íbúðarhús á lóðinni Tryggvagötu 13. Hugmyndasamkeppni verður um útlit hússins og borgartorgs framan við bygginguna. 

Heimilt er að reisa hús fyrir íbúðir með atvinnuhúsnæði á jarðhæð eða byggja alfarið atvinnuhúsnæði á öllum hæðum með þeirri undantekningu að gistirekstur er óheimill í húsinu.

Lóðin sem er austan Tryggvagötu, á milli Grófarhúss og Hafnarhvols, er um 840 fermetrar að stærð. Á henni má byggja sex hæða hús, ásamt kjallara og heimilar deiliskipulag rúmlega 5.200 fermetra hús. Útboðsskilmálar voru samþykktir í borgarráði 22 . maí 2014, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Húsið rís á áberandi og mikilvægum stað í miðborginni og í útboðsskilmálum er áréttað að sérstaklega skuli vanda til hönnunar og útlits byggingarinnar. Gert er ráð fyrir hugmyndasamkeppni í samstarfi við Arkitektafélag Íslands um útlit Tryggvagötu 13, auk borgartorgs framan við bygginguna og útfærslu á götunni sunnan við Tryggvagötu 13 og 15. Lóðarhafi og Reykjavíkurborg munu vinna saman að gerð keppnislýsingar. 

Tilboðum í lóðina skal skila 25. júní 2014. Lóðinni verður ráðstafað til hæstbjóðanda sem uppfyllir skilmála útboðsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka