Ökumaðurinn hálsbrotinn

Ein bifreiðanna sem lenti í árekstrinum.
Ein bifreiðanna sem lenti í árekstrinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

 Nítján ára piltur sem olli alvarlegum árekstri á gatnamótum Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar er hálsbrotinn. Hann og félagar hans höfðu gert tilraun til þjófnaðar í Skeifunni og voru að flýja undan lögreglunni. 

Lögreglan fékk tilkynningu klukkan 20:51 að menn væru að reyna að stela í verslun og að þeir hefðu ekið á brott í bifreið. Sá sem lét lögreglu vita taldi það fullvíst að ökumaður væri í annarlegu ástandi. 

Það er svo þremur mínútum síðar sem lögreglumenn á eftirlitsferð verða bifreiðarinnar varir skammt frá gatnamótum Suðurlandsbrautar og Kringlumýrarbrautar. Er bifreiðinni þá ekið rakleitt út á gatnamótin á móti rauðu ljósi og olli sex bíla árekstri. Þrír bílanna voru óökufærir eftir slysið en alls voru fjórtán manns í  bifreiðunum sex .  

Fjórir piltar voru í bílnum sem olli árekstrinum og hlupu farþegarnir þrír á brott en voru handteknir skömmu síðar í nágrenninu. 

Ökumaðurinn, nítján ára piltur var meðvitundarlítill þegar lögreglu og sjúkralið bar að og er hann á sjúkrahúsi alvarlega slasaður.

Farþegarnir þrír gista allir fangageymslu eftir að þeir höfðu verið skoðaðir á slysadeild.  Alls voru níu færðir til skoðunar og meðferðar á slysadeild eftir áreksturinn.  Nokkuð var um eymsli á ökumönnum og farþegum í bílunum sem urðu fyrir höggi frá bíl piltanna fjögurra sem voru á flótta eftir þjófnaðartilraun í Skeifunni.

Mikið var um sjúkraflutninga hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins í gærkvöldi og nótt en alls voru flutningarnir fjörtíu talsins á næturvaktinni.

Flúði lögreglu og lenti í árekstri

Frá slysstað í gærkvöldi
Frá slysstað í gærkvöldi Páll P. Daníelsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka