„Góðir kennarar kveikja áhuga“

„Ég hef haft alveg ofboðslega marga góða kennara í gegnum …
„Ég hef haft alveg ofboðslega marga góða kennara í gegnum tíðina sem hafa kveikt áhuga minn á námsefninu,“ segir Karítas. Mynd/Mjöll Þórarinsdóttir

„Lykillinn að námsárangri er aðallega áhugi og vinnusemi en að hafa góða kennara skiptir einnig mjög miklu máli,“ segir Karítas Pálsdóttir, dúx Menntaskólans við Hamrahlíð. Hún útskrifaðist á sunnudaginn af málabraut með meðaleinkunnina 9,71.

„Ég hef haft alveg ofboðslega marga góða kennara í gegnum tíðina sem hafa kveikt áhuga minn á námsefninu,“ bætir Karítas við. Foreldrar Karítasar eru þau Hrund Þórarinsdóttir, aðjúnkt við Háskóla Íslands og Páll Skaftason, viðskiptafræðingur. 

Heimur tungumálanna heillar

Tungumál eru í uppáhaldi hjá Karítas og hefur hún á skólagöngu sinni í MH lagt stund á fjölda tungumála auk þess sem hún hefur búið bæði í Danmörku og í Minnesota í Bandaríkjunum. „Ég hef gaman að dönsku og ensku eftir að hafa búið þar. Í MH lærði ég svo frönsku og spænsku auk þess sem ég tók einn áfanga í arabísku og tvo áfanga í japönsku.

Þrátt fyrir að hafa lagt stund á öll þessi tungumál er það íslenskan sem heillar mest. „Íslenskan er í uppáhaldi eins og er og ég stefni á nám í íslensku í Háskólanum í haust“. Áhugi Karítasar á íslensku kviknaði í 7.  til 10. bekk í Laugalækjarskóla og hefur að hennar sögn farið vaxandi síðan. „Íslenskukennararnir sem ég hef haft í MH hafa viðhaldið áhuga mínum“ segir Karítas.

Aðspurð hvort námstæknin við að læra tungumál sé frábrugðin námstækni við aðrar greinar svarar hún því neitandi. „Maður verður að kunna að greina aðalatriði frá aukaatriðum. Þetta snýst um skipulag og maður verður að leggja hlutina á minnið. Vinnusemi skiptir máli. Það er mikilvægt að vinna í þessu jafnt og þétt yfir árið og leggja metnað í verkefnin alveg eins og í prófin“.

Fjölbreytt félagsstörf og listnám

Karítas er ekki einungis öflugur námsmaður því hún hefur samhliða námi lagt stund á tónlistar- og dansnám auk þess sem hún hefur í ár gegnt formennsku í KSS, Kristilegum skólasamtökum sem er félag ungs fólks á aldrinum 15-20 ára. Að auki hefur hún unnið í sunnudagsskólanum í Hallgrímskirkju í vetur.

Í sumar mun hún svo starfa hjá sumarbúðum KFUM og KFUK. „Ég hef unnið þar undanfarin tvö sumur, það er afskaplega skemmtilegt. Í Vindáshlíð og Ölveri sinni ég mjög fjölbreyttum störfum; sinni stelpunum og sé um fræðslu, leiki og skemmtiatriði og tek þátt í eldamennsku og þrifum,“ segir Karítas.

„Íslenskan er í uppáhaldi eins og er og ég stefni …
„Íslenskan er í uppáhaldi eins og er og ég stefni á nám í íslensku í Háskólanum í haust“. Mynd/Mjöll Þórarinsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert