Ísland staðfestir jafnréttissáttmála

Jafnréttissáttmáli UN Women var undirritaður á Hilton Nordica í dag.
Jafnréttissáttmáli UN Women var undirritaður á Hilton Nordica í dag. mbl.is/Þórður

Stjórnarráð Íslands undirritaði í dag yfirlýsingu um að fylgja Jafnréttissáttmála stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women). Þetta er í fyrsta sinn sem öll ráðuneyti eins ríkis undirrita þennan sáttmála í sameiningu. Jafnframt var undirritaður sáttmáli SÞ um samfélagslega ábyrgð.

Undirritunin fór fram á opinni ráðstefnu UN Women á Íslandi, Festa og Samtaka atvinnulífsins á Hótel Nordica, en Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytis, staðfesti sáttmálana fyrir hönd Stjórnarráðsins.

Kristin Hetle, framkvæmdastjóri hjá UN Women í New York, var viðstödd ráðstefnuna og óskaði íslenskum stjórnvöldum til hamingju með áfangann. Hún sagði þetta skref staðfesta enn á ný forystuhlutverk Íslands í að stuðla að jafnrétti kynjanna.

„Þessi sáttmáli er tæki, bæði fyrir opinbera geirann og almenna markaðinn til þess að koma á jafnrétti kynjanna á vinnustöðum,“ sagði Hetle.

Með undirrituninni lýsir Stjórnarráð Íslands yfir stuðningi við þau viðmið sem sett eru fram sáttmálunum og skuldbindur sig til þess að fylgja viðmiðunum í hvívetna.

Undirritun sáttmálanna fellur að þeirri stefnu íslenskra stjórnvalda að Ísland verði áfram í fararbroddi í jafnréttismálum en Ísland hefur skipað fyrsta sæti á lista Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum) um jafnrétti kynjanna fimm ár í röð.

Enn eru þó áskoranir t.d. hvað varðar stöðu kvenna í atvinnulífinu því konur í æðstu stjórnunarstöðum eru mun færri en karlar. Þá þarf að uppræta launamun kynjanna og grípa til aðgerða til að stuðla að breyttu náms- og starfsvali, en vinnumarkaður á Íslandi er mjög kynskiptur.

Viðmið sáttmálanna eru að stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði, sýna jafnt körlum sem konum virðingu og styðja mannréttndi og jafnrétti, tryggja heilsu, öryggi og velferð allra kvenna og karla á vinnustað, efla menntun, þjálfun og faglega þróun kvenna á vinnustað. Jafnramt að innleiða stefnu og aðgerðir á meðal stofnana ríkisins sem og á vinnumarkaði sem ýta undir aukna þátttöku kvenna, stuðla að jafnrétti í samfélaginu með vitundarvakningu og átaksverkefnum og mæla og birta opinberlega árangur í jafnréttismálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert