Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem í desember dæmdi Hæstaréttarlögmennina Gest Jónsson og Ragnar H. Hall til að greiða hvor um sig 1.000.000 króna réttarfarssekt.
Fimm dómarar dæmdu í málinu en tveir þeirra skiluðu sératkvæði þar sem fram kemur á meðferð málsins í héraði hafi verið ábótavant.
Fram kemur í dómi Hæstaréttar að þeir Gestur og Ragnar hafi verið skipaðir verjendur Sigurðar Einarssonar og Ólaf Ólafssonar í Al-Thani-málinu svokallaða. Áður en aðalmeðferð málsins átti að fara fram rituðu þeir héraðsdómara bréf þar sem því var lýst yfir að þeir myndu ekki sinna frekari verjendastörfum í málinu þar sem þeir teldu að brotið hefði verið gegn rétti skjólstæðinga þeirra til réttlátrar málsmeðferðar. Óskuðu þeir eftir því að vera þegar í stað leystir undan starfanum, en þeirri beiðni synjaði héraðsdómari.
Er aðalmeðferð átti að fara fram mættu Gestur og Ragnar ekki til þinghalds og voru þeir því leystir frá verjendastörfum í málinu og skjólstæðingum þeirra skipaðir nýir verjendur. Að auki var aðalmeðferð málsins frestað ótiltekið.
Með dómi í sakamálinu voru Gestur og Ragnar dæmdir til að greiða 1.000.000 krónur hvor um sig í sekt til ríkissjóðs, en dómurinn var kveðinn upp að þeim fjarstöddum.
Að ósk Gests og Ragnars var dóminum hvað þetta varðaði áfrýjað til Hæstaréttar, en þeir báru því annars vegar við að þeir hefðu ekki notið réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. og 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þar sem þeim hefði ekki verið gefinn kostur á að halda uppi vörnum áður en þeim var ákvörðuð sektin og hins vegar að þeir hefðu haft réttmætar ástæður til þess að segja sig frá verjendastörfum í málinu.
Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði m.a. að Gestur og Ragnar hefði borið að mæta til þings við aðalmeðferð málsins og eftir atvikum viðhafa andmæli við málsmeðferðina eftir því sem efni hefðu staðið til. Hefði háttsemi þeirra hvorki verið í þágu skjólstæðinga þeirra né annarra ákærðu auk þess sem yfirlýsingar þeirra um að þeir létu af verjendastörfum hefðu falið í sér gróft brot á starfsskyldum þeirra sem verjendur í sakamáli, sbr. 1. mgr. 35. gr., sbr. 34. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Þá vísaði Hæstiréttur til þess að fjárhæð réttarfarssektar, sem ákveðin væri samkvæmt XXXV. kafla laga nr. 88/2008, væri ekki bundin tilteknu hámarki og hefðu sektir Gests og Ragnars numið hárri fjárhæð.
Þegar litið væri til beggja þessara atriða yrði talið að sektirnar væru í eðli sínu refsing. Taldi Hæstiréttur að það hefði ekki horft Gesti og Ragnari til réttarspjalla þótt sérstakur málflutningur hefði ekki farið fram í héraði, áður en ákvörðun hefði verið tekin um að gera þeim réttarfarssekt þar sem réttur þeirra til þess að halda uppi vörnum á áfrýjunarstigi sætti að lögum engum takmörkunum og hefðu þeir getað komið að öllum sjónarmiðum sínum við munnlegan flutning málsins, eftir atvikum með því að þeir og vitni gæfu skýrslur fyrir dómi, sbr. 3. mgr. 205. gr. lag nr. 88/2008, eða að undangengnu sérstöku vitnamáli, sbr. 1. mgr. 141. gr. sömu laga.
Samkvæmt því fullnægði málsmeðferðin ákvæðum laga og bryti hún ekki í bága við regluna um réttláta málsmeðferð. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um réttarfarssekt á hendur Gesti og Ragnari.
Hæstaréttardómarinn Ólafur Börkur Þorvaldsson og Stefán Már Stefánsson prófessor skiluðu sératkvæði. Þeir segjast vera sammála því að Gesti og Ragnari hafi borið að mæta til þings sem skipaðir verjendur og eftir atvikum viðhafa andmæli við málsmeðferðina eftir reglum laga um meðferð sakamála. Þeir eru jafnframt samþykkir röksemdum og niðurstöðu meirihlutans um að sektir þær sem lagðar hafi verið á varnaraðila séu í eðli sínu refsing.
Þeir segja, er ljóst var að varnaraðilar myndu ekki mæta til þinghalds hafi samkvæmt ákvæðumXXV. kafla laga nr. 88/2008 verið rétt að boða til dómþings þá strax í framhaldinu, kynna varnaraðilum sakarefnið og gefa kost á andmælum um ákvörðun sekta. Það hafi á hinn bóginn ekki verið gert, en varnaraðilar leystir frá störfum í þinghaldinu 11. apríl 2013 og nýir verjendur skipaðir í þeirra stað. En á kvörðun um sektir á hendur varnaraðilum tekin með dómi í efnismálinu 12. desember 2013 án þess að þeim, sem þá höfðu ekki lengur stöðu verjenda, hefði verið kynnt sakarefnið og gefinn kostur á að koma að vörnum, bæði hvað varðar álagningu sekta og fjárhæð þeirra.
„Samkvæmt framansögðu var meðferð málsins í héraði ábótavant en lög standa ekki til þess að þessum þætti héraðsdómsins verði vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar. Þar sem svo háttaði til við meðferð málsins teljum við rétt að fella hið áfrýjaða ákvæði héraðsdóms um réttarfarssektir úr gildi. Þá teljum við að áfrýjunarkostnaður skuli greiddur ríkissjóði,“ segir í sératkvæðinu.